Erlent

For­set­i og for­sæt­is­ráð­herr­a Malí í hald­i hers­ins

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar fylgjast með mótmælum vegna handtöku forsetans og forsætisráðherrans í Malí. Aðgerðir hersins hafa verið harðlega gagnrýndar víða.
Lögregluþjónar fylgjast með mótmælum vegna handtöku forsetans og forsætisráðherrans í Malí. Aðgerðir hersins hafa verið harðlega gagnrýndar víða. AP

Her Malí hefur vikið forseta og forsætisráðherra ríkisins úr embættum og tekið völdin. Það er tíu mánuðum eftir að herinn tók síðast völd í Malí með því að velta forsetanum Ibrahim Boubacar Keïta úr sessi.

Þá var því heitið að kosningar yrðu haldnar og lýðræði komið aftur á. Bráðabirgðastjórn var mynduð í september sem leidd var af forsetanum Bah Ndaw og forsætisráðherranum Moctar Ouane.

Ofurstinn Assimi Goita, sem leiddi valdaránið í fyrra, hefur nú vikið þeim Ndaw og Ouane úr embætti, fangað þá og sakar ofurstinn þá um að hafa reynt að skemma lýðræðisferlið. Í ávarpi sem hann hélt í dag sagði Goita að enn stæði til að halda kosningar á næsta ári, samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar.

Malí hefur átt í miklum vandræðum undanfarin ár. Þar er mikil fátækt og þá hefur ríkisstjórn landsins átt í mannskæðri og kostnaðarsamri baráttu við vígamenn í austurhluta landsins.

AFP segir Goita hafa orðið reiðan þegar þeir Ndaw og Ouane gerðu breytingar á bráðabirgðastjórninni, án þess að hafa rætt við Goita, sem er titlaður sem varaforseti í bráðabirgðastjórninni.

Því voru þeir handsamaðir af hernum í gær.

Vendingarnar hafa verið fordæmdar af Sameinuðu þjóðunum, Afríkubandalaginu, efnahagsráði Vestur-Afríkuríkja, Evrópusambandinu og Bandaríkjunum.

Ráðamenn í Frakklandi, sem voru áður nýlenduherrar Malí, segja að um hreint og beint valdarán sér að ráða. Utanríkisráðherra Frakklands hefur krafist þess að forsetanum og forsætisráðherranum verði sleppt úr haldi hersins.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur kallað eftir því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna komi saman sem fyrst til að ræða valdaránið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×