Innlent

Átök og eldræða í borgarstjórn: „Sjálfstæðisflokkurinn er kýli á samfélaginu“

Eiður Þór Árnason skrifar
Frá öðrum fundi borgarstjórnar Reykjavíkur.
Frá öðrum fundi borgarstjórnar Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Átök brutust út á fundi borgarstjórnar í kvöld þegar rætt var um nýbirtan ársreikning Reykjavíkurborgar. Mikil spenna var milli fulltrúa minnihluta og meirihluta þar sem þeir fyrrnefndu gagnrýndu harðlega rekstrarniðurstöðu borgarinnar.

Allt ætlaði þó um koll að keyra þegar Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, gerði lítið úr athugasemdum Sjálfstæðismanna og beindi spjótum sínum rækilega að flokknum í ræðu sinni.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík.Aðsend

„Ég vil leggja áherslu á og undirstrika að Sjálfstæðisflokknum er ekki treystandi fyrir styrkri fjármálastjórn, hvorki hér né annars staðar. Hans helsta áróðursmarkmið er að láta fólk trúa því að hann sé ofboðslega ábyrgur þegar kemur að fjármálum en hann er það ekki,“ sagði Dóra Björt í ræðupúlti borgarstjórnar.

„Sjálfstæðisflokkurinn og hans stjórnun er ekki ábyrg, ekki heiðarleg og ekki góð. Það sem hefur komið fram í dag er að flokkurinn hefði frekar viljað skera niður en axla þá ábyrgð sem við ákváðum að gera í þessari efnahagskreppu. Jákvæð niðurstaða í Excel skiptir Sjálfstæðisflokkinn meira máli en líf fólks, atvinnustig í samfélaginu eða efnahagsástand samfélagsins, þá vitum við það.“

Þá sagði Dóra Björt óábyrgt og skaðlegt að gagnrýna innviðafjárfestingu og leggja til að borgin myndi standa með hendur í skauti í núverandi efnahagsástandi.

„Það er í raun algjör vitleysa að Sjálfstæðisflokkurinn standi fyrir ábyrga efnahagsstjórn, hann stendur fyrir sérhagsmunagæslu, hann stendur fyrir spillingu og gæti ekki verið meira sama um velferð einstaklinga. Þetta fyrirlít ég,“ bætti hún við í eldræðu sinni við misgóðar undirtektir viðstaddra.

„Hann stendur fyrir þröngsýni og gamaldags nálgun á efnahagsmál og þar sem hann er við völd veldur hann oft miklum skaða. Sjálfstæðisflokkurinn er í raun kýli á samfélaginu, hann er hreint og beint hættulegur samfélaginu.“

„Hann stendur fyrir það að gata kerfið okkar svo fjármunir og eignir almennings geti lekið í þeirra eigin vasa. Það er ekki ábyrg fjármálastjórn,“ sagði hún enn fremur.

Horfa má á fundinn í spilaranum hér fyrir ofan. Ræða Dóru Bjartar hefst þegar fjórar klukkustundir eru liðnar af fundinum.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.Aðsend

Sagði ræðuna vera drullukast

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins var fyrst til að svara ræðu Dóru Bjartar og kallaði efni hennar „skítkast dauðans.“

„Ekki það að ég sé að halda uppi einhverri vörn fyrir Sjálfstæðisflokkinn en við erum öll fólk hérna og þvílíkt drullukast á einn flokk,“ bætti hún við áður en hún líkti ummælum Dóru um Sjálfstæðisflokkinn í ræðustól og blaðagreinum við einelti.

„Mér finnst þetta ekki boðlegt. Ef við endurspilum þetta lið fyrir lið og orð fyrir orð þá hljóta allir menn að sjá að þetta er ekki mannsæmandi, hvorki hér eða annars staðar.“

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.Vísir/vilhelm

Ætti að halda þessu fyrir sig

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, gagnrýndi Pawel Bartoszek, forseta borgarstjórnar, fyrir að leyfa Dóru Björt að fara út fyrir umræðuefni fundarins.

„Og að vera með ásakanir og dylgjur sem í raun og veru fer þvert gegn siðareglum okkar og ræða ekki ársreikninginn. Ég vil bara minna á það að við eigum að ræða hérna ársreikninginn og ef það er ekki virt þá getum við bara farið að ræða einhver allt önnur mál hérna undir; umferðarmál, húsnæðismál eða hvað einhver sé vondur í salnum.“

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, sagði Dóru Björt ganga enn á ný fram með „dylgjur og deleríngu úr ræðupúlti borgarstjórnar og það beinist allt gegn einum flokki.“

„Ef hún hefur þessa persónulegu skoðun þá verður hún að hafa hana fyrir sig. Þetta er ekki boðlegt fyrir borgarstjórn Reykjavíkur. […] Þetta ber forseta að stoppa.“

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík.Vísir/Vilhelm

Sýni hvað meirihlutanum líði illa

Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði málflutning Dóru „vera fyrir neðan allar hellur.“

„Það er mér algjörlega ótrúlegt að borgarfulltrúi eða forseti borgarstjórnar skuli ekki hafa stoppað þennan orðaflaum sem kemur úr munni borgarfulltrúans.“

„Það er algjörlega ótækt að menn hagi sér svona,“ sagði Björn og beindi orðum sínum að Pawel Bartoszek, forseta borgarstjórnar.

Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.Aðsend

Eyþór Arnalds steig síðar aftur í ræðupúlt borgarstjórnar. Aftur var ræða Dóru til umræðu sem hann sagði „vera til skammar.“

„Ég hefði viljað að málflutningur meirihlutans hafi fjallað meira um ársreikninginn og minna um önnur mál. Mér finnst eftirtektarvert að sjá hvað þeir fulltrúar meirihlutans sem hafa hér talað eru með böggum hildar og greinilega líður illa með þennan ársreikning og þessa stöðu. Það er eina skýringin á því hvernig þeir hafa hegðað sér hérna í dag, það er ekkert annað.

„Hér eigum við að tala faglega og yfirvegað um staðreyndir og tölur. Við höfum ákveðið að ræða bara einn hlut hér í dag, það er ársreikningurinn og þeir sem ekki treysta sér til þess eru greinilega að forðast að ræða það sem er til umræðu. Það dæmir sig sjálft, því meiri sem dónaskapurinn og dylgjurnar verða því meira er það staðfest að meirihlutanum líður illa með þessa stöðu,“ sagði Eyþór Arnalds á fundi borgarstjórnar í kvöld.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×