Erlent

Vonast til að setja nýtt lyf við Co­vid-19 á markað fyrir lok árs

Sylvía Hall skrifar
Albert Bourla (t.h.) er forstjóri Pfizer.
Albert Bourla (t.h.) er forstjóri Pfizer. Getty/Drew Angerer

Albert Bourla, forstjóri lyfjafyrirtækisins Pfizer, er bjartsýnn á að nýtt lyf við kórónuveirunni sem veldur Covid-19 sjúkdómnum verði komið á markað fyrir lok ársins. Lyfið, sem enn er á tilraunastigi, er í töfluformi og yrði notað þegar fyrstu einkenni gera vart við sig.

Þetta sagði Bourla í samtali við CNBC fyrr í vikunni, en hann segist vona að allt gangi að óskum og lyfið komi vel út úr tilraunum. Ef allt gangi eftir og það fái samþykki matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna verði hægt að dreifa því um Bandaríkin undir lok árs.

Lyfið tilheyrir flokki lyfja sem kallast próteasahemlar og hefur áhrif á ensím í líkamanum sem vírusinn þarf á að halda til þess að fjölga sér í frumum líkamans. Tilraunir með lyfið hófust í mars síðastliðnum, en próteasahemlar hafa einnig verið notaðir til þess að meðhöndla aðra veirusjúkdóma á borð við HIV og lifrarbólgu C.

Á vef CNBC segir að sérfræðingar fagni því að slíkt lyf sé í vinnslu, þar sem það gæti skipt sköpum í baráttunni við veiruna. Fólk sem hefði smitast gæti því nálgast lyfið án þess að þurfa að leita á sjúkrahús.

Samhliða þessu vinnur Pfizer nú að þróun bóluefnis fyrir börn á aldrinum sex mánaða til ellefu ára, en slíkt hefur verið talið nauðsynlegt til þess að binda enda á faraldurinn. Fyrirtækið sendi beiðni til matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna í síðasta mánuði um að heimila notkun fyrra bóluefnis fyrir unglinga á aldrinum tólf til fimmtán ára eftir að rannsókn sýndi fram á 100 prósent virkni.


Tengdar fréttir

Mæla með að bóluefni Moderna fái neyðarheimild

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur mælt með því að bóluefni Moderna gegn kórónuveirunni fái neyðarheimild til notkunar. Moderna hefur sagst ætla að stórauka framleiðslugetu sína þannig að fyrirtækið geti framleitt allt að þrjá milljarða skammta á næsta ári.

Þrjár milljónir dánar vegna Covid-19

Rúmlega þrjár milljónir manna hafa nú dáið á heimsvísu vegna Covid-19. Heilt yfir hafa rúmlega 140 milljónir smitast, svo vitað sé. Mögulega er raunverulegur fjöldi látinna þá hærri og jafnvel töluvert hærri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×