Enski boltinn

„Þrjú stig en hugur okkar er hjá Rui Pat­ricio“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sjúkraliðar gera að Rui Patricio.
Sjúkraliðar gera að Rui Patricio. Matthew Ashton/Getty

Liverpool vann í kvöld mikilvægan sigur í ensku úrvalsdeildinni er liðið vann 1-0 sigur á Wolves á útivelli.

Diogo Jota var að spila á sínum gamla heimavelli í fyrsta sinn eftir skiptin frá Wolves til Liverpool en hann reyndist hetja ensku meistarana.

Það setti þó svartan blett á leik kvöldsins að Rui Patricio fékk slæmt höfuðhögg undir lok leiksins er hann lenti á samherji sínum Conor Coady.

Coady var að reyna að koma í veg fyrir skot Mo Salah og það endaði með því að hné Coady fór í höfuðið á Rui sem lá óvígur eftir.

Í yfir tíu mínútur lá portúgalski markvörðurinn á vellinum og starfsfólk hlúði að honum. Leikmenn virtust eðlilega í áfalli en að endingu var hann svo borinn af velli.

„Þrjú stigin en hugur okkar er hjá Rui Patricio,“ skrifaði Liverpool á Twitter-síðu sína í kvöld.

Wolves setti einnig inn mynd af markverðinum og hjarta.

Ekki hafa borist nánari upplýsingar um líðan hans er þessi frétt er skrifuð.

Uppfært 22.29: Nuno Espirito Santo, stjóri Wolves, staðfesti í viðtali eftir leikinn að markvörðurinn væri í góðu lagi. Hann væri með meðvitund, gæti talað og mundi eftir atvikinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×