Íslenski boltinn

Öruggt hjá KR á meðan Sæ­var Atli reyndist hetja Leiknis

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leiknismenn fagna sigurmarki Sævars Atla í dag.
Leiknismenn fagna sigurmarki Sævars Atla í dag. Leiknir Reykjavík

Tveimur leikjum til viðbótar er nú lokið í Lengjubikar karla í knattspyrnu. KR vann öruggan 3-1 sigur á Kórdrengjum og þá vann Leiknir Reykjavík nágranna sína í Fylki 1-0 í Árbænum.

Í Vesturbænum voru Kórdrengir í heimsókn. Grétar Snær Gunnarsson kom heimamönnum yfir snemma leiks og þannig var staðan í hálfleik. Í síðari hálfleik bættu þeir Ægir Jarl Jónasson og Oddur Ingi Bjarnason við mörkum áður en Þórir Rafn Þórisson minnkaði muninn í blálokin, lokatölur 3-1 KR í vil. 

Var þetta þriðji sigur KR-inga í fjórum leikjum en liðið gerði jafntefli við Víking í fyrstu umferð. KR-ingar því með tíu stig, líkt og Víkingur á meðan Kórdrengir eru með þrjú stig.

Fyrirliðinn tryggði gestunum stigin þrjú

Í Árbænum voru nýliðar Leiknis R. í heimsókn en bæði lið leika í Pepsi Max deildinni í sumar. Staðan var markalaus í hálfleik en í þeim síðari skoraði fyrirliði gestanna, Sævar Atli Magnússon, sannkallað draumamark er hann þrumaði boltanum í stöng og inn.

Reyndist það eina mark leiksins en Dagur Austmann Hilmarsson fékk sitt annað gula spjald þegar stundarfjórðungur lifði leiks en heimamönnum tókst ekki að jafna metin þrátt fyrir að vera manni fleiri. Lokatölur því 0-1 og sigurinn Leiknismanna í dag.

Fylkir er enn í 2. sæti riðilsins með níu stig en þar á eftir kemur Leiknir með sex stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.