Íslenski boltinn

Kór­drengir munu spila heima­leiki sína í Breið­holti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kórdrengir munu leika heimaleiki sína í Breiðholti í sumar.
Kórdrengir munu leika heimaleiki sína í Breiðholti í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Kórdrengir munu leika sem nýliðar í Lengjudeild karla í knattspyrnu í sumar. Það verður ekki það eina sem verður nýtt hjá liðinu en liðið mun leika heimaleiki sína í Breiðholti en ekki Safamýri líkt og undanfarin ár.

Frá því að uppgangur Kórdrengja hófst sumarið 2018 er liðið fór upp úr 4. deildinni þá hefur liðið alltaf leikið heimaleiki sína á gervigrasi Fram í Safamýrinni. Sumarið 2019 vann liðið 3. deildina og síðasta sumar vann liðið 2. deildina sem þýðir að leikur eins og áður sagði sem nýliði í Lengjudeildinni næsta sumar.

Í dag gaf Knattspyrnusamband Íslands út leikjadagskrá Íslandsmótsins í knattspyrnu hjá liðum í Pepsi Max og Lengjudeildunum sem og í Mjólkurbikar karla og kvenna. Þar kemur fram að Kórdrengir munu leika heimaleiki sína á Domusnovavellinum í Breiðholti þar sem Leiknir Reykjavíkur leikur heimaleiki sína.

Samkvæmt heimildum Fótbolti.net er verið að vinna í því að Kórdrengir fái að spila á gervigrasvelli þeirra Leiknismanna. Var gervigrasið á vellinum lagt árið 2017 líkt og í Safamýrinni svo ekki ætti að vera um mikla breytingu að ræða fyrir Kórdrengi.

Fyrsti heimaleikur Kórdrengja í Breiðholtinu er gegn Selfyssingum í 2. umferð Íslandsmótsins en liðin komu saman upp úr 2. deildinni síðasta haust.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.