Innlent

Freista þess að leysa bíla­stæða­vanda með því að bólu­setja í Laugar­dals­höll

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Vísir/Vilhelm

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir undirbúning að opnun fjöldabólusetningarmiðstöðvar í Laugardalshöll ekki tengjast mögulegum samningi við Pfizer um bólusetningu allrar þjóðarinnar. Hann býst við að bólusetningarmiðstöð í Laugardalshöll verði tekin í notkun á miðvikudaginn.

„Við erum að reyna að leysa þessi bílastæðamál. Það hefur aðeins verið hamlandi þáttur á Suðurlandsbrautinni þessi bílastæðamál þannig að við ætlum að athuga hvort að þetta geti gengið þægilegar í gegn, ef að við erum með meiri bílastæði þannig að við ætlum að prófa Laugardalshöllina,“ segir Óskar en fjallað var um málið í kvöldfréttum Rúv í kvöld.

Hann segir undirbúning að opnun fjöldabólusetningarmiðstöðvar í Laugardalshöll ekki vera til marks um að samningur við Pfizer um mögulega bólusetningu allrar þjóðarinnar verði að veruleika.

„Við höfum ekki hugmynd um það, við höfum ekkert með það að gera. Þetta er bara til þess að leysa þau mál sem að við erum með akkúrat núna, að bílastæðin hafa verið aðeins hamlandi þáttur. Við tókum eftir því þegar við fengum gamla fólkið að það var hamlandi þáttur, það voru bílastæðin á Suðurlandsbraut. Núna þegar við höldum áfram að bólusetja í febrúar með þessum hætti þá viljum við reyna að passa það að það verði ekki neinn stoppari hjá okkur og að þetta gangi bara vel fyrir sig,“ segir Óskar og ítrekar að þetta hafi ekki neitt með Pfizer-samninga að gera.

„Við höfum auðvitað ekki hugmynd um neitt í þeim málum. En við erum eins og skátarnir, ávallt reiðubúin,“ segir Óskar. „Þetta sem við erum að gera núna er bara að leysa bílastæðamálin, svona til að tryggja það að þetta gang þægilegra fyrir sig, að við séum ekki að bíða eftir fólki. Þetta rennur betur í gegn ef að bílastæðin eru góð.“

Bólusetning fer gjarnan fram í nokkrum törnum eftir því sem skammtar berast til landsins af bóluefni. „Við erum ekkert að bólusetja alveg alla daga af því að bóluefnið er ekki það mikið að við þurfum þess. En við viljum bara sjá til þess að það sé ekkert að stranda á okkur,“ segir Óskar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×