Innlent

Biður fólk að hætta að senda tölvu­pósta til að komast ofar í for­gangs­röðun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Lögreglan

Sóttvarnalæknir biðlar til fólks að hætta að senda embætti landlæknis og sóttvarnalæknis tölvupósta með óskum um að komast framar í forgangsröðun í bólusetningu gegn kórónuveirunni. Slíkt skapi aðeins óþarfa álag á starfsfólk og leiði ekki til neins.

„Það er rétt að ítreka enn og aftur að í forgangi eru núna þeir sem eru í mestri áhættu að smitast af Covid-19 og einnig þeir sem eru eldri en sjötugir en þeir eru líklegastir til að fá alvarlega Covid-19-sýkingu eða alvarlegar afleiðingar af henni,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Þessir forgangshópar samanstandi líklega af um 40 þúsund einstaklingum. Líklega verði ekki hægt að byrja að bólusetja næsta forgangshóp fyrr en í fyrsta lagi í marsmánuði en sá hópur samanstendur af fólki undir sjötugu með ákveðna undirliggjandi sjúkdóma.

„Þannig þýðir lítið að vera að krefja okkur um nákvæma tímasetningu um bólusetningu á þessari stundu hjá öðrum forgangshópum. Það helgast hreinlega af því að við vitum ekki hvenær eða hversu mikið af bóluefni við fáum,“ sagði Þórólfur.

Reyna útdeila bóluefnum eins réttlátt og hægt er

Vonir standi til að í febrúar verði byrjað að dreifa bóluefni frá AstraZeneca og nokkru síðar bóluefninu frá Janssen/Johnson &Johnson. Þannig gætu bólusetningar gengið hraðar fyrir sig en lýst var hér að framan.

Þórólfur bað fólk að endingu um að hætta að óska eftir því að komast framar í forgangsröðunina. Slíkt skapaði óþarfa álag á starfsfólk embættisins.

„Ég vil biðla til fólks að láta vera að senda okkur pósta sem ætlað er að koma því framar í forgangsröðun bólusetninga. Það mun ekki leiða til neins nema valda okkur vinnuálagi við að svara. Ef við hins vegar myndum verða við öllum þessum beiðnum myndi það verða til þess að okkar viðkvæmasta fólk myndi færast neðar í forgangsröðunina. Við reynum að útdeila bóluefnum eins réttlátt og hægt er, samkvæmt fyrirliggjandi plani, þó auðvitað sé hægt að gagnrýna einstaka ákvarðanir.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.