Innlent

Skutu flugeldum á endurnar á Tjörninni

Jakob Bjarnar skrifar
Ungir menn hafa gert sér það að leik að undanförnu að skjóta flugeldum og kínverjum að fuglunum sem hafa fundið sér athvarf á Tjörninni í miðborg Reykjavíkur.
Ungir menn hafa gert sér það að leik að undanförnu að skjóta flugeldum og kínverjum að fuglunum sem hafa fundið sér athvarf á Tjörninni í miðborg Reykjavíkur. vísir/hanna

Íbúum við Tjörnina er brugðið en ungir menn hafa sést þar við þann ljóta leik að kveikja á flugeldum og kínverjum og beina að fuglalífi sem þar er.

Vísir ræddi við einn þeirra sem býr í grennd við Tjörnina sem segir að þetta hafi hent nokkrum sinnum að undanförnu. Í gærkvöldi hafi þrír menn undir tvítugu komið á fínum Lexus-bíl, ekið á móti umferð, stokkið út og leikið þennan leik. Viðmælandi Vísis segist hafa tilkynnt þetta til lögreglu en ekki er um málið getið í dagbók hennar nú í morgun.

Íbúinn segir afar sorglegt að horfa uppá þetta sem megi heita nöturleg tómstundariðja og megi jafnvel flokka sem einskonar dýraníð. Ekki fylgir sögunni hvort mennirnir hafi með athæfi sínu náð að meiða fuglana, sem oftast eru kallaðir endurnar á Tjörninni, þó þar finnist fleiri tegundir svo sem svanir og gæsir, en ljóst er að mikil styggð hefur við þennan hávaða og eldglæringar komist í fuglahópinn sem á sér einskis ills von.

Að sögn lögreglunnar barst tilkynning um atvik af þessu tagi klukkan rúmlega eitt í nótt. Þegar lögreglu bar að var engin ummerki að sjá og hinir meintu dýraplagar á bak og burt. Í samtali við Vísi segir Rafn Hilmar Guðmundsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni á Hverfisgötu nokkuð um tilkynningar þessa efnis; að menn séu að fara gáleysislega með eldfæri en í dag er Þrettándinn og við búið að hrollur sé í skotglöðum.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.