Innlent

Ekki talin hætta á flóðum á Selfossi

Hvítá á Suðurlandi er í vexti og er farið að hækka í Ölfusá en ekki er talin hætta á flóðum á Selfossi.

Samkvæmt mælingum Vatnamælinga er rennslið nú um 600 rúmmetrar á sekúndu. Gert er ráð fyrir að rennslið við Selfoss aukist þegar líða tekur á kvöldið og nái um 1450 rúmmetrum á sekúndu undir morgun og verði því líkt flóði sem varð 2004.

Það var líka mikill vöxtur í Skjálfandafljóti í Aðaladal í gær. Fljótið fór vestur úr farvegi sínum og í átt að höfuðbólinu Glaumbæ. Lítill klaki barst ofan að þannig að aðeins myndaðist lítil krapastífla og fór því betur en á horfðist.

Engan búpening sakaði en eitthvað tjón varð á girðingum sem er að verða árlegur viðburður á þessu svæði.

Verulegt tjón varð víða á Suðurlandi á þessum tíma í fyrra. Þá var Hvítá einnig í vexti og náði þá 2000 rúmmetrum á sekúndu. Vatnsmagnið nú er talsvert minna en íbúar og sumarhúsaeigendur við ána eru engu að síður beðnir að huga að eigum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×