Innlent

Sýknaður af því að hafa nefbrotið samfanga sinn viljandi í knattspyrnuleik

MYND/Stefán

Hæstiréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Suðurlands og sýknaði fanga á Litla-Hrauni af ákæru um líkamsárás með því að hafa slegið samfanga sinnn í andlitið í knattspyrnuleik á íþróttasvæði fanga á Litla-Hrauni.

Sá sem varð fyrir högginu nefbrotnaði og hafði héraðsdómur dæmt þann sem átti að hafa slegið í þriggja mánaða fangelsi og til þess að greiða hinum fanganum 220 þúsund krónur í bætur. Hæstiréttur sýknaði hann hins vegar þar sem ekki þótti komin fram sönnun þess að hann hefði vísvitandi slegið manninn, en mikil harka mun hafa verið í knattspyrnuleiknum.

Þá var í dómi Hæstaréttar vísað til þess að með þátttöku í knattspyrnu gengju menn af frjálsum vilja til leiks sem lyti ákveðnum reglum. Kynni háttsemi í leiknum, sem við aðrar aðstæður væri refsiverð, að vera refsilaus ef hún væri innan marka venjulegs leiks og í beinum tengslum við hann. Þótti ósannað að hinn ákærði hefði farið út fyrir það sem vænta mætti við iðkun knattspyrnu þegar leikmönnum hlypi kapp í kinn.

Maðurinn var einnig ákærður fyrir vörslu fíkniefna sem fundust í jakka við leit í klefa hans. Með hliðsjón af því hvernig staðið hafði verið að rannsókn málsins og þar sem maðurinn hafði ekki verið spurður hvort hann hefði haft vitneskju um fíkniefnin þótti ákæruvaldinu ekki hafa tekist að sanna að hann hafi vitað eða mátt vita af þeim í klefanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×