Innlent

Eimskipsmál sýnir vaxandi styrk Samkeppniseftirlitsins

MYND/Pjetur

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir að úrskurður Samkeppniseftirlitsins í máli Eimskips sýni hversu sterk stofnunin sé orðin.

Eins og fram kom í fréttum í gær var Eimskip sektað um 310 milljónir króna fyrir að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína á sjóflutningamarkaði. Taldi stofnunin að brot Eimskip hefðu verið alvarleg og til þess fallin að valda atvinnulífinu og almenningi miklu samkeppnislegu tjóni. Reynt hefði verið markvisst að bola keppinautinum Samskipum út af markaðnum með markaðsatlögu.

„Samkeppniseftirlitið kemst þarna að því eftir ítarlega rannsókn að um alvarlegt brot sé að ræða og sektar félagið. Ég tel að þetta undirstriki að Samkeppniseftirlitið er öflug stofnun," segir Björgvin og bætir við að stofnunin hafa verið efld enn frekar með því að auka framlög til hennar um 30 prósent milli ára.

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, var forstjóri Eimskips á þeim tíma sem brotin voru framin. Samkeppniseftirlitið segir að ráða megi af gögnum málsins að aðgerðir Eimskips hafi að mestu verið skipulagðar af framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Eimskips í nánu samstarfi við forstjóra og aðra framkvæmdastjóra félagsins.

Aðspurður hvort niðurstaða Samkeppniseftirlitsins veiki stöðu Ingimundar hjá Íslandspósti, sem er hlutafélag í eigu ríkisins, segir Björgvin að það verði að koma í ljós. Ingimundur verði meðal annars að meta það sjálfur.

Íslandspóstur heyrir undir samgönguráðuneytið en Kristján L. Möller samgönguráðherra hyggst ekki tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×