Tónlist

Bein út­sending: Streymis­tón­listar­há­tíðin Sótt­kví 2020

Hjalti Freyr Ragnarsson skrifar
Sacha Bernardson og Théophile Clet eru meðal þeirra sem standa að hátíðinni. Sacha kemur einnig fram á henni um helgina en Théo kom fram þegar hátíðin var haldin í fyrsta sinn fyrir rétt rúmum mánuði.
Sacha Bernardson og Théophile Clet eru meðal þeirra sem standa að hátíðinni. Sacha kemur einnig fram á henni um helgina en Théo kom fram þegar hátíðin var haldin í fyrsta sinn fyrir rétt rúmum mánuði.

Tónlistarhátíðin Sóttkví 2020 er haldin í þriðja sinn nú um helgina, frá þrjú til tíu á laugardegi og svo aftur á sama tíma á sunnudegi. Hátíðin er mjög „heimagerð“ og hafa tónleikahaldararnir lært á streymistónleikaformið og erfiðleikana sem geta fylgt þeim á meðan útsendingum stendur.

Streymt er frá tónleikum listamannanna í heimahúsum og stúdíórýmum, og er framsetningin jafn mismunandi og tónleikarnir eru margir. Töluverður fjöldi þeirra sem koma fram eru íslensk, í bland við aragrúa af tónlistarfólki hvaðanæva úr heiminum.

Anna Worthington De Matos, sem rekur einnig Reykjavík Tool Library, stendur fyrir hátíðinni ásamt tónlistarmanninum Sacha Bernardson með dyggri tæknilegri aðstoð Théophile Clet.

Anna hefur ekki getað unnið síðustu sjö vikurnar vegna sjálfsofnæmissjúkdóms sem setur hana í áhættuhóp gagnvart veirunni, og einangrun hennar heima við varð til þess að hugmyndin að hátíðinni kviknaði.

Í fyrsta sinn stóð hátíðin yfir í heilan sólarhring samfleytt, og í annað skipti í átta klukkustundir.

Höfuðpaur hátíðarinnar Anna Worthington De Matos í höfuðstöðvum og stjórnstöð streymistónlistarhátíðarinnar Sóttkví 2020.Juliana Güntert

„Það er komið að því að halda hátíðina í þriðja sinn og mun hún standa yfir í tvo daga,“ segir tónleikahaldarinn Anna, sem setti saman lagalista fyrir Vísi í gær í tilefni.

„Við erum með frábæra nýja listamenn í bland við listamenn sem hafa áður komið fram á hátíðinni.

Þetta verður mjög gaman, jafnvel með alla erfiðleikana sem við gætum þurft að kljást við, en við munum þráast við og sigrast á þeim.“

23 atriði verða á hátíðinni að þessu sinni, þar á meðal Kira Kira, Madonna+Child og IDK/IDA. Hér að neðan má sjá plakat með öllum þeim sem koma fram, en röðin hefur ekki verið gefin upp á hátíðinni. Fólk er frekar hvatt til að líta við og sjá tónleika með listafólki sem það hefur mögulega aldrei heyrt um áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×