Lífið

Glímir við ókunnugan ljósmyndaþjóf á alheimsnetinu

María Guðrún Rúnarsdóttir stendur í stappi við ókunnuga manneskju sem stelur ljósmyndum hennar af Facebook.
María Guðrún Rúnarsdóttir stendur í stappi við ókunnuga manneskju sem stelur ljósmyndum hennar af Facebook.
„Hún sendi mér póst í byrjun vikunnar þar sem hún þakkar mér fyrir að setja myndirnar mínar inn á Facebook svo hún geti stolið þeim. Ég áttaði mig þá á því að hún hlyti að vera vinur minn á Facebook og þá undir öðru nafni þannig ég ákvað að fara í gegnum vinalistann minn og henda út öllum sem ég þekkti annað hvort lítið eða ekkert. Síðan þá hef ég fengið um fimm vinabeiðnir á dag frá henni og alltaf undir nýju nafni," segir María Guðrún Rúnarsdóttir nemandi í ljósmyndun við BTK skólann í Berlín.

Ókunnug manneskja er kallar sig Majapaja Pictures á Facebook hefur stolið fjölda mynda Maríu Guðrúnar en segir síðuna vera aðdáendasíðu.

Þetta er í annað sinn sem María Guðrún lendir í því að myndum hennar er stolið og þær notaðar af öðrum án leyfis. Fyrir nokkrum árum var myndum af dóttur hennar stolið af Flickr.com deilisíðunni og einnig af persónulegu bloggi hennar.

„Ég hef haldið úti Flickr síðu í mörg ár en fór að ritskoða efnið sem ég setti þar inn eftir að ég komst að því að það væri verið að stela þeim. Í staðinn byrjaði ég að nota Facebook því mér fannst ég geta fylgst betur með efninu þar, en nú þori ég því ekki nema með enn hertara eftirliti," útskýrir hún.

Notandinn kallar sig Majapaja Pictures á Facebook.
Innt eftir því hvort algengt sé að ljósmyndarar verði varir við að fólk sé að stela verkum þeirra segist María Guðrún hafa heyrt af nokkrum dæmum um slíkt. „Ég veit að ein lenti í því að myndum hennar var stolið og þær seldar undir fölsku nafni."

María Guðrún kveðst ekki vita hvað hægt sé að gera til að koma í veg fyrir áframhaldandi stuld á verkum hennar annað en að fara varlegar. „Ég held að þetta fólk mundi stela myndunum sama þótt þær væru vatnsmerktar á einhvern hátt. Maður verður bara að fara varlega."

sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.