Leikjavísir

Stiklusúpa: Allt það helsta sem kynnt var á Game awards

Samúel Karl Ólason skrifar
Það voru ansi margir leikir opinberaðir í gær.
Það voru ansi margir leikir opinberaðir í gær.

Verðlaunahátíðin Game Awards 2025 fór fram með pomp og prakt í gær. Við það tilefni eiga forsvarsmenn leikjafyrirtækja það til að opinbera nýjar stiklur og var gærdagurinn engin undatekning frá því.

Fjöldi stikla fyrir nýja leiki voru sýndar í gær og þar á meðal voru nokkrar sem komu mörgum á óvart.

Meðal annars var opinberað að unnið væri að nýjum hlutverkaleik í söguheimi Star Wars sem á að vera í anda hinna gömlu Knights of the Old Republic-leikja, sem voru og eru hreint út sagt frábærir leikir. Þá tilkynntu Larian Studios að þeirra næsti leikur væri í Divinity-seríunni og einnig kom fram að tveir Tomb Raider leikir væru í vinnslu og að verið væri að gera framhald af leiknum Control frá 2019.

Það var af nógu að taka. Hér að neðan verður stiklað á stóru yfir það helsta og aðeins meira en það. Sjá má fleiri stiklur á YouTubesíðu Game Awards.

Clair Obscur: Expedition 33 var valinn leikurinn ársins en hann vann einnig í flokkum bestu leikstjórnar, bestu sögunnar, bestu liststýringarinnar og bestu tónlistarinnar. Þá vann leikurinn einnig verðlaun fyrir bestu leiklistina og talsetningu, auk þess sem hann vann í flokkum bestu sjálfstæðu leikja.

Enn fremur var Clair Obscur: Expedition 33 valinn besti hlutverkaleikur ársins. Það er óhætt að segja að leikurinn hafi sigrað á hátíðinni sjálfri.


Fate of the Old Republic

Tiltölulega nýtt fyrirtæki sem stofnað var af Casey Hudson, sem vann áður hjá Bioware og kom meðal annars að gömlu Knights of the Old Republikc og Mass Effect leikjunum, hefur tekið að sér að gera leikinn Star Wars: Fate of the Old Republic.

Þar er um að ræða hlutverka- og einspilunarleik sem lýst er sem framhaldsleik í anda (e. Spiritual successor) gömlu Kotor-leikjanna. Kitla fyrir þennan leik var birt í gær.


Divinity

Larian Studios, sem eru hvað þekktust fyrir Baldurs Gate 3, og tvo leiki í Divinity seríunni, opinberuðu í gær að unnið væri að gerð þriðja leiksins í þeirri seríu. Leiknum er lýst sem þeim stærsta sem fyrirtækið hefur unnið að, sem ætti að vera nokkuð stórt, og á maður ekki að þurfa að spila fyrri leikina tvo til að njóta hans.

Stiklan sjálf varpar ekki miklu ljósi á um hvað leikurinn snýst og þykir nokkuð ógeðfelld á köflum. Til marks um það sætir hún aldurstakmörkunum á Youtube.


Control Resonant

Remedy vinnur að nýjum Control leik, sem kallast Control Resonant. Leikurinn virðist nokkuð frábrugðin þeim fyrri og er komin ný aðalpersóna, Dylan Faden. Það er bróðir Jesse Faden, sem fyrsti leikurinn fjallaði um og gerist leikurinn í New York.

Ástandið þar virðist nokkuð slæmt, miðað við stikluna.


Total War: Warhammer 40.000

Creative Assembly, sem hefur um árabil verið þekkt fyrir Total War herkænskuleikina ætlar ekki að hætta að gera Warhammer-leiki, þó gamla heims leikirnir séu að klárast. Þess í stað ætlar fyrirtækið nú að snúa sér að Warhammer 40.000.

Í þeim leik þurfa spilarar væntanlega að byggja upp veldi sín í hinni hræðilegu vetrarbraut sem WH 40K gerist í, sama þó þeir spili sem menn, orkar, Aeldari eða aðrir, og leiða heri sína í orrustum.

Stiklan sem birt var í gær sýnir stórar orrustur en það verður áhugavert að sjá hvernig starfsmenn CA munu útfæra leikjaformúlu fyrirtækisins yfir á svo stórt sögusvið.


Star Wars: Galactic Racer

Fate of the Old Republic er ekki eini Star Wars leikurinn sem opinberaður var í gær. Kappakstursleikurinn Star Wars: Galactic Racer leit einnig dagsins ljós.

Stikla leiksins sýnir margskonar farartæki í kappakstri á mismunandi plánetum en leikurinn er sagður eiga að búa yfir einspilunarhluta þar sem spilarar setja sig í spor persónum sem kallast Shade.


Diablo 4: Lord of Hatred

Nýjasti aukapakki Diablo 4, Lord of Hatred, fékk stiklu og útgáfudag í gær. Pakki þessi er sagður eiga að gera töluverðar breytingar á leiknum vinsæla og spilun hans.


Tveir Tomb Raider-leikir

Tveir leikir um grafhýsaræningjann Löru Croft litu dagsins ljós í gær. Sá fyrsti kallast Tomb Raider: Legacy of Atlantis en hann svipar mjög til gömlu leikjanna um Löru og leit hennar að fjársjóði og baráttu við risaeðlur.

Um er að ræða einskonar endurgerð á fyrstu leikjunum.

Seinni leikurinn er nýr. Hann heitir Tomb Raider: Catalyst og fjallar um glænýtt ævintrýri Löru Croft.


Exodus

Leikurinn Exodus var upprunalega opinberaður fyrir þremur árum síðan, á Game Awards 2023. Hann er einnig gerður af fyrrverandi starfsmönnum Bioware, sem komu að Mass Effect leikjunum.

Að þessu sinni fékk leikurinn nýja stiklu og útgáfuglugga en hann á að koma út snemma á árinu 2027.

Leikurinn er hlutverkaleikur með Matthew McConaughey í aðalhlutverki. 


Free Shepherd

Langar þig að prófa að smalla rollum eins og alvöru hundur? Þá gæti leikurinn Free Sheperd verið fyrir þig. Hann setur spilara í þófa hunds, mögulega á annarri plánetu, þar sem hann þarf að smala saman sauðfé.

Þetta selur sig sjálft.


Ace Combat 8: Wings of Theve

Síðasti Ace Combat leikurinn kom út árið 2019 og nú er komið að þeim áttunda í seríunni frá Bandai Namco. Þetta eru flugleikir sem snúast meira um hasar og fjör en raunveruleika.


Lego Batman: Legacy of the Dark Knight

Nýr Lego Batman leikur verður gefinn út á næsta ári. Í fljótu bragði virðist spilunin ekki ósvipuð Arkham-leikjunum vinsælu, þó einkenni Lego-leikjanna séu bersýnileg á stiklunni. Þar á meðal er gott grín og gaman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.