Innlent

Tillögur um nýja borgara vekja gleði

Allsherjar- og menntamálanefnd hefur lagt fram frumvarp um nýja Íslendinga. Alþingi á eftir að samþykkja frumvarpið.
Allsherjar- og menntamálanefnd hefur lagt fram frumvarp um nýja Íslendinga. Alþingi á eftir að samþykkja frumvarpið. fréttablaðið/gva
Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis hefur lagt til að 24 verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur og lagt fram frumvarp þess efnis.

Meðal þeirra nafna sem finna má á listanum er Mehdi Kavyanpoor. Íraninn komst í fréttir í mars þegar hann gekk inn í húsnæði Rauða krossins, hellti yfir sig bensíni og hótaði að leggja að sér eld. Þetta gerði hann til að mótmæla því að hafa ekki fengið hér hæli af mannúðarástæðum. Hann fullyrti að hann hefði sætt pyntingum af hálfu íranskra stjórnvalda.

Mehdi var handtekinn og málið rannsakað en að lokum var ákveðið að gefa ekki út ákæru þar sem ekki þótti sýnt fram á að hann hefði ætlað að skaða aðra en sjálfan sig.

Mehdi var í skýjunum með ákvörðun nefndarinnar þegar Fréttablaðið náði tali af honum. „Mér finnst ég svo heppinn, ég er svo hamingjusamur,“ sagði hann, þótt hann gerði þann fyrirvara að frumvarpið hefði ekki verið samþykkt. Hann segist ekki hafa átt von á þessu. „Nei, ég er mjög hissa og get hreinlega ekki hugsað skýrt.“

Annar sem nefndin leggur til að fái íslenskt ríkisfang er Siim Vitsut, tveggja ára sonur Hannesar Þórs Helgasonar, sem Gunnar Rúnar Sigurþórsson myrti í sumarlok í fyrra. Skömmu eftir morðið kom í ljós að Hannes átti son í Litháen.

„Ég er mjög ánægður með þetta,“ segir Helgi Vilhjálmsson í Góu, faðir Hannesar, um tillögu nefndarinnar. „Þetta er ekki nema eðlilegt, pabbi hans var íslenskur og afi hans líka – rammíslenskur,“ bætir hann við.

Siim litla var útvegaður lögfræðingur til að gæta hagsmuna hans við málareksturinn gegn Gunnari Rúnari, hvað bætur og annað varðaði. Helgi segist hafa nefnt það við lögmanninn að gaman væri ef drengurinn öðlaðist tvöfalt ríkisfang og lögmaðurinn hafi í kjölfarið gengið í að útbúa umsókn.

„Auðvitað hefur maður áhuga á því að drengurinn sé með íslenskan ríkisborgararétt svo maður geti tekið á móti honum eins og öðrum barnabörnum. Ég er svona barnakarl,“ segir Helgi.

Allsherjarnefnd bárust 42 umsóknir um ríkisborgararétt að þessu sinni og lagði til að 24 fengju hann. Þeir eru frá átján löndum í Evrópu, Asíu, Afríku og Suður-Ameríku.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×