Innlent

Gunnar Birgisson: "Reglur eiga ekki alltaf við“

Hafsteinn Hauksson skrifar
Gunnar Birgisson.
Gunnar Birgisson.
Gunnar Birgisson, fyrrverandi stjórnarformaður Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar, segir að reglur eigi ekki alltaf við, en hann hefur nú ásamt öðrum stjórnarmönnum verið ákærður fyrir ólögmætar lánveitingar sjóðsins og blekkingar.

Ríkissaksóknari hefur ákært fyrrum framkvæmdastjóra og fimm stjórnarmenn í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar, en Flosi Eiríksson, einn hinna ákærðu, sagði í yfirlýsingu í gær að ákæran sneri að ólögmætum lánveitingum sjóðsins til Kópavogsbæjar haustið 2008 og meintum blekkingum stjórnarmanna gagnvart Fjármálaeftirlitinu.

Lánveitingar sjóðsins til sveitarfélagsins námu allt að tuttugu prósentum eigna hans, en leyfilegt hámark samkvæmt lögum er helmingi minna.

Gunnar I. Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogs, var stjórnarformaður sjóðsins á þessum tíma og segir ákæruna ekki koma á óvart miðað við það sem á undan er gengið. Hann segir að þegar stjórn sjóðsins hafði bjargað fjármunum út úr bönkunum skömmu fyrir hrun hafi engir fjárfestingarkostir staðið til boða, og því hafi stjórnin gripið til þess ráðs að leggja þá í bæjarsjóð, enda var bærinn í ábyrgðum fyrir lífeyrissjóðinn.

„Í öðru lagi erum við ákærð fyrir að blekkja fjármálaeftirlitið," segir Gunnar. „Við vísum því á bug, þeir vissu allan tímann um þetta mál. Aðstæður voru mjög óeðlilegar á þessum tíma, þetta var eitt mesta efnahagslega fárviðri sem brostið hefur á íslenska þjóð."

Gunnar segir þannig vissulega ljóst að lánveitingarnar hafi farið á svig við bókstaf laganna og aldrei hafi verið gerð tilraun til að fela það. En er semsagt í lagi að brjóta reglurnar þegar manni finnst þær ekki eiga við?

„Það var kannski ekki hægt að miða við aðstæður eins og þær voru þá. Við vorum að hugsa um fjármuni sjóðsins og bæjarins og gerðum það eftir bestu samvisku. Það hagnaðist enginn í stjórn sjóðsins á þessu. Við vorum eingöngu að hugsa um lífeyrissjóðinn og bæinn," segir Gunnar og bætir við: „Reglur eiga kannski ekki alltaf við, eins og í þessu fárviðri sem gekk yfir, það er ekki hægt að miða við þær aðstæður sem þá voru uppi."

En er hægt að lá ríkissaksóknara að vilja fá úr þessu skorið fyrir dómi?

„Þetta er náttúrulega svo lítið mál, að ef það á að ákæra í þessu máli þá hljóta að fylgja eftir tugir eða hundruðir ákæra á aðra lífeyrissjóði og bankanna og annað slíkt. Það fóru svo margir á svig við þessar reglur á þessum tíma, og jafnvel fyrr. Það hlýtur að vera mikið að gera hjá þeim. Við erum einn minnsti lífeyrissjóðurinn með einna bestu ávöxtunina - ætli þeir haldi ekki að þeir ráði helst við mál af þessari stærðargráðu?"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×