Enski boltinn

Bowyer: Ég hef breyst

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bowyer, lengst til hægri, fagnar marki í leik með Birmingham.
Bowyer, lengst til hægri, fagnar marki í leik með Birmingham. Nordic Photos / Getty Images
Lee Bowyer segir að hann hafi orðið skynsamur á sínum efri árum sem knattspyrnumaður.

Bowyer hefur þótt standa sig afar vel með Birmingham á leiktíðinni en hann öðlaðist fyrst frægð þegar hann lék með Leeds á sínum tíma. Hann heldur upp á 33 ára afmælið sitt í dag en Birmingham mætir Manchester United síðar í dag.

Bowyer hefur skorað sex mörk í öllum leikjum á tímabilinu og segir að hann hafi breytt framkomu sinni inn á vellinum, ekki síst gagnvart knattspyrnudómurunum.

„Ég hef öðlast smá vit. Ég er með mikið keppnisskap og áður fyrr mótmælti ég hverri einustu ákvörðun dómara," sagði Bowyer í samtali við enska fjölmiðla.

„En í dag reyni ég frekar að ræða við þá og ég held að þeir taki betur í það. Þeim finnst ekki gaman að láta öksra á sig."

„Ég hef aðeins fengið þrjú gul spjöld á tímabilinu og tvær þeirra voru áminningar sem ég tók á mig fyrir liðið í leikjunum gegn Chelsea og Stoke um jólin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×