Innlent

Fjölskylda slapp úr eldi

Fjölskylda slapp naumlega út úr brennandi húsi við Brekkubæ í Árbæjarhverfi í Reykjavík á áttunda tímanum í morgun. Grunur leikur á að kviknað hafi í út frá gasgrilli en slíkir brunar verða æ tíðari. Slökkviliðsmaður á leið á vakt varð fyrstur var við eldinn. Hann þykir hafa sýnt mikið snarræði þegar hann hljóp inn í húsið og kom íbúunum tveimur út en mikill reykur var þá í íbúðinni. Það logaði glatt þegar fjölmennt slökkvilið kom á vettvang. Eldurinn hafði þá læst sig í klæðningu hússins og inn að þaki. Ljóst er að miklar skemmdir hafa orðið. Grillið stóð nálægt húsinu, upp við glerrúðu. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu höfðu húsráðendur grillað í gærkvöld og talið sig hafa slökkt á grillinu. Útköllum vegna slíkra bruna fer fjölgandi að sögn Friðriks Þorsteinssonar, vaktstjóra hjá Slökkviliði Reykjavíkur, og þá helst með tvennum hætti. Annars vegar að það kvikni í þegar verið er að grilla eða að gasslöngurnar gefi sig þannig að það logi út frá kútnum. Aðspurður hvernig fólk eigi að bregðast við slíku segir Friðrik að fólk eigi að hafa eldþolna vettlinga eða hreinlega eldvarnarteppi við höndina svo hægt sé að komast að kútnum og skrúfa fyrir. Þá sé öll hætta yfirstaðin. Algengt er að fólk leyfi eldinum að loga á grillinu, eftir matseld, til að brenna burt fitu og spara sér þrif. Á stuttum tíma getur það orsakað eldhaf. Einnig getur búnaður í grillinu gefið sig, ef ekki er lokað fyrir gaskútinn, og þá er voðinn vís. Friðrik brýnir því fyrir fólki að ganga rétt frá. Myndin er úr myndasafni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×