Innlent

Olíuverð ekki hærra í 20 ár

Olíu- og bensínverð er nú í tuttugu ára hámarki. Íslensku olíufélögin segja engar forsendur fyrir þessu verði og vonast til að verð hér á landi þurfi ekki að hækka frekar. Olíumálaráðherra Sádi-Arabíu segir að spákaupmenn séu orðnir ótrúlega ósvífnir. Verð á heimsmarkaði er nú 45,35 dollarar fyrir fatið og hefur ekki verið jafn hátt í rúm tuttugu ár. Ástæðurnar sem nefndar eru eru meðal annars ótryggt ástand í Írak, ótryggt stjórnmálaástand í Venesúela, yfirvofandi fellibylur á Mexíkó-flóa og ófremdarástandið hjá Yukon, olíurisanum í Rússlandi. Þetta segja margir aðilar að séu hreinar tylliástæður spákaupmanna sem engar forsendur séu fyrir. Olía komi nú úr mörgum áttum og það sé enginn skortur á henni. Því sé þetta háa verð fullkomlega ástæðulaust. Sheik Yamani, olíumálaráðherra Sádi Arabíu, sagði um þetta verð að það væri spákaupmönnum einum að kenna og þeir væru orðnir óvenju ósvífnir. Einn talsmanna olíufélaganna sagði við fréttastofuna í morgun hvernig í ósköpunum það mætti vera að Írak sé nefnt sem ástæða fyrir 45 dollurum á fatið núna, en það hefði ekki verið nema 35 til 37 meðan á stríðinu sjálfu stóð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×