Erlent

Í vandræðum vegna gíslamála

Uppreisnarmenn í Írak hafa nú bæði gísla frá Japan og Ástralíu í haldi sínu en það eru þau tvö lönd sem hvað staðfastlegast hafa staðið við bakið á Bandaríkjastjórn í Írak. Ríkisstjórnir beggja landa eiga í töluverðum pólitískum vandræðum heima fyrir vegna þessa. Einhver herskáasti uppreisnahópurinn í Írak, Ansar al-Sunna, fullyrðir að hann hafi í haldi sínu illa særðan Japana og hefur sett mynd af vegabréfi mannsins á Netið. Fjórir félagar mannsins, verktakar sem starfa hjá bresku öryggisfyrirtæki í Írak voru myrtir í árás í gær. Annar hópur uppreisnarmanna er með Ástralíubúa í haldi. Í síðustu viku sýndu þeir myndband af manninum sem þá hafði greinilega verið laminn og var með glóðarauga og hafði hárið verið rakað af honum. Hópurinn sagðist myndu myrða gíslinn ef Ástralíustjórn drægi hermenn sína ekki frá Írak. Fresturinn sem gefinn var rann út í morgun en ekkert hefur frést af örlögum gíslsins. Bæði Japan og Ástralía halda úti herdeildum í Írak og hafa verið dyggir stuðningsmenn Bandaríkjastjórnar bæði í innrásinni og hernáminu. Ríkisstjórnir beggja landa hafa ítrekað lýst því yfir að þær semji ekki við hryðjuverkamenn og muni aldrei verða við kröfum þeirra. Þessi mannrán hafa þó valdið nokkrum pólitískum væringum heima fyrir og magnað upp andstöðu innanlands við þátttöku landanna í þessu stríði. Gíslatökur Japana hafa vakið sérstaklega mikla athygli í Japan enda er japanski verktakinn sem nú situr í haldi mannræningja sjötti japanski gíslinn sem hefur verið rænt í Írak. Fimm hafa sloppið lifandi en japanskur bakpokaferðalangur var myrtur af mannræningjum á síðasta ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×