Erlent

Rafsanjani í forsetaframboð

Akbar Hashemi Rafsanjani, fyrrverandi forseti Írans, mun bjóða sig fram til embættisins aftur. Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir nánum aðstoðarmönnum hans í dag. Þeir segja að von sé á yfirlýsingu frá forsetanum fyrrverandi innan nokkurra stunda. Rafsanjani, sem er sjötugur, var við völd í landinu á árunum 1989-1997 en hann er hófsamur íhaldsmaður sem þykir hallur undir Vesturlönd. Rafsanjani hafði áður ýjað að því að hann myndi gefa kost á sér en stuðningsmenn hans sögðu hann þó í vafa vegna þrýstings frá harðlínumönnum í Íran. Rafsanjani er talinn sigurstranglegur í forsetakosningunum sem fara fram um miðjan næsta mánuð og ljóst er að kjör hans myndi gleðja vestræna erindreka sem m.a. deila nú við Írana um kjarnorkuáætlun landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×