Lífið

Ólafur ein af stjörnum Ólympíulistahátíðar í London

Ólafur Elíasson er í mögnuðum hópi sem á að bera uppi listahátíð London árið 2012.
Ólafur Elíasson er í mögnuðum hópi sem á að bera uppi listahátíð London árið 2012.
„Þegar menn eru búnir að reisa fossa í New York og byggja sól er þetta kannski rökrétt framhald,“ segir Börkur Arnarson hjá listgalleríinu i8, einn nánasti samstarfsmaður Ólafs Elíassonar hér á landi.

Íslenski listamaðurinn verður ein af stjörnum Listahátíðar í London árið 2012 sem haldin verður í tengslum við Ólympíuleikana þar. Í kynningu á listahátíðinni segir að fremstu listamenn heims hafi verið valdir til að taka þátt í þessum einstaka viðburði. Meðal þeirra eru leikkonan Cate Blanchett, rithöfundurinn Toni Morrison, leikstjórinn Mike Leigh og stórstjörnurnar Damon Albarn og Jude Law. Ólafur verður aðalnúmerið í listhlutanum en Börkur sagðist ekki vita hvert hans hlutverk væri. „Ég held alveg örugglega að þetta eigi að koma fólki á óvart og menn vilji ekki ræða um það í smáatriðum.“ Fram kemur í fréttatilkynningu að Ólafur sé að vinna sérstakt verk fyrir hátíðina ásamt listakonunni Rachel White­read og að það verði til sýnis.

Börkur segir það ekki koma sér á óvart að Bretarnir skuli hafa falast eftir kröftum Ólafs. Listamaðurinn sé í fremstu röð í nútímalist en veðursýning hans í Tate Modern var valin einn af menningarviðburðum fyrsta áratugar þessarar aldar í breska blaðinu The Tele­graph. Boris Johnson, borgar­stjóri London, fór enda fögrum orðum um hópinn sem Ólafur tilheyrir í fréttatilkynningunni. „Listamennirnir eru af þeirri stærðargráðu að öllum ætti að vera það ljóst að árið 2012 verður eitt af eftirminnilegri árum í sögu London.“ Undir það tók Sebastian Coe, formaður Ólympíunefndarinnar í London. „Sumarið 2012 verður töfrum líkast og þessi Listahátíð á eftir að leika stórt hlutverk í að gera Ólympíuleikana að stærstu sýningu heims.“ freyrgigja@frettabladid.is







Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.