Lífið

Fyrsta upplag uppselt

Jónas Sigurðsson ásamt söngkonunni Esther Jökulsdóttur á tónleikunum í Tjarnarbíói.   fréttablaðið/valli
Jónas Sigurðsson ásamt söngkonunni Esther Jökulsdóttur á tónleikunum í Tjarnarbíói. fréttablaðið/valli
Tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson hélt vel heppnaða tónleika í Tjarnarbíói í vikunni ásamt hljómsveit sinni Ritvélum framtíðarinnar. Tilefnið var önnur plata hans, Allt er eitthvað, sem kom út í október. Þar er meðal annars að finna sumar­smellinn Hamingjan er hér.

„Við tókum útgáfutónleika í Tjarnarbíói og þeir gengu mjög vel þannig að okkur langaði að halda aðra svoleiðis tónleika fyrir jólin,“ segir Jónas, sem var ánægður með útkomuna. „Það sem þetta konsept gengur út á er að vera með þrumandi tónleika því músíkin er svo stór. Það verður að krydda þetta með þvílíkum látum.“

Fyrsta upplagið af nýju plötunni, sem telur 1.500 eintök, er uppselt og annað er á leiðinni. Síðasta plata Jónasar, Þar sem malbikið svífur mun ég dansa, hefur selst í um 1.000 eintökum síðan hún kom út en hún fékk mun minni kynningu. „Sölutölurnar í þessum jólaslag eru eitt. Svo er annað sem er kjarninn í þessu sem er músíkin. Hún nær út og fólk er að tengja við hana. Mér finnst það mjög sterkt, því töfrarnir gerast þar,“ segir Jónas.

Ritvélar fram­tíðar­innar munu spila á Norðurpólnum 21. desember ásamt Moses Hightower, Big Bandi Samúels J. Samúelssonar og Ómari Guðjónssyni.- fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.