Lífið

Kvíðinn hefur verið minn akkilesarhæll

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gauti Þeyr hefur tekist á við kvíða og notar allskyns róandi aðferðir við það.
Gauti Þeyr hefur tekist á við kvíða og notar allskyns róandi aðferðir við það. vísir/vilhelm

Rapparinn Gauti Þeyr Másson, betur þekktur sem Emmsjé Gauti, hefur verið einn vinsælasti tónlistarmaður þjóðarinnar undanfarin ár og er að verða einn á reynslumesti í rappsenunni hér á landi.

Hann er töluverður viðskiptamaður og stofnaði hamborgarastað í Vesturbænum fyrir ekki svo löngu. Rapparinn er gestur vikunnar í Einkalífinu en hann er síðasti gesturinn í þessari þáttaröð.

„Ef þú ert alltaf með magaverk þarftu að fara skoða hvað þú ert að borða og ef þú ert alltaf kvíðinn þarftu að fara skoða hvort þú sért að sofa nóg, ert þú að drekka of mikinn bjór og ég held að meginpunkturinn sé að láta sér líða vel,“ segir Gauti um kvíða sem hann hefur glímt við í töluverðan tíma.

„Minn akkilesarhæll hefur verið kvíði og þú ert oftar en ekki búinn að búa til hluti í hausnum á þér og ofgera aðstæður. Mér hefur tekist að komast í gegnum það án þess að dæla í mig kvíðalyfjum. Mér finnst ég alltaf hafa verið smá kvíðinn og annaðhvort er þetta að færast í aukanna eða fólk er meira að opna sig um það, sem er mjög jákvætt. Ég held að það hjálpi alltaf að tala um hlutina. Það er staðreynd að sama hversu hellað vandamálið þitt er þá er einhver að díla við það og að öllum líkindum manneskjan sem þú situr á móti,“ segir Gauti og heldur áfram.

„Á einhvern hátt erum við öll að takast á við það sama og mér finnst frábært hvað fólk er opið að leita sér aðstoðar. Þetta snýst samt um að díla við hluti og ég nenni ekki að fólk sé að tala við mig um vandamál og fer síðan alltaf í sama farið. Maður þarf að finna sína leið en ég held að öndun, slökun, jóga, hugleiðsla, kaldi potturinn, prófa að sleppa að drekka og allskonar þannig leiðir séu fyrsta skrefið sem maður á að taka.“

Í þættinum hér að ofan ræðir Gauti einnig um tónlistarferilinn, hvernig ferill hans hefur þróast í gegnum árin, kvíða sem hann hefur glímt við í áraraðir, um komandi plötu og um hvað hún fjallar, um þau fjárhagsleg áföll sem kórónaveiran hefur í för með sér fyrir tónlistarmenn, um framhaldið og margt margt fleira.


Tengdar fréttir

Það ætlar enginn að skilja

Fjölmiðlakonan og rithöfundurinn Björg Magnúsdóttir hefur slegið í gegn á skjánum undanfarin ár og farið mikinn í beinum útsendingum í Söngvakeppninni og í þáttunum Kappsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×