Innlent

Nýtt spálíkan gerir ráð fyrir mun færri smituðum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar

Samkvæmt nýju spálíkani Háskóla Íslands, sem gefið var út í dag, er búist við því að rúmlega 1500 manns greinist með COVID-19. Svartsýnasta spá gerir þó ráð fyrir því sem nemur um 2300 greindum smitum.

Líkanið er unnið með gögnum til og með gærdeginum, 24. mars. Þá kemur fram að spáin hafi breyst með tilliti til þess að á síðustu dögum hafi færri smit greinst en dagana á undan.

Síðasta spá, sem gerð var 22. mars, gerði ráð fyrir að 2500 til 6000 manns myndu smitast.

Helstu niðurstöður spálíkansins með gögnum til og með 24. mars eru eftirfarandi:

  • Gert er ráð fyrir því að á meðan faraldurinn gengur yfir muni rúmlega 1500 manns á Íslandi verið greindir með COVID-19, en talan gæti náð nær 2300 manns skv. svartsýnustu spá.
  • Gert er ráð fyrir að fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm nái hámarki í fyrstu viku apríl og verði sennilega um 1200 manns, en gæti náð 1600 manns skv. svartsýnustu spá.
  • Gert er ráð fyrir að á meðan að faraldurinn gengur yfir muni rúmlega 100 manns þarfnast innlagnar á sjúkrahúsi, en gæti náð hátt í 160 manns skv. svartsýnustu spá.
  • Mesta álag á heilbrigðisþjónustu vegna sjúkrahúsinnlagna verður fyrir miðjan apríl en þá er gert ráð fyrir að tæplega 60 einstaklingar geti verið inniliggjandi á sama tíma, en svartsýnasta spá er 80 einstaklingar.
  • Gert er ráð fyrir því að á tíma faraldursins muni um 13 einstaklingar veikjast alvarlega, þ.e. þurfa innlögn á gjörgæslu, á tímabilinu en svartsýnasta spá er 23 einstaklingar.
  • Mesta álag á gjörgæsludeildir gæti orðið í annarri viku apríl, en þá er búist við því að 5 manns liggi þar inni á sama tíma, en samkvæmt svartsýnustu spá gætu það verið 11 manns.

Þá kemur fram að greiningarvinna muni halda áfram og að spálíkanið verð uppfært reglulega með nýjum upplýsingum. Eins ber að athuga að vegna fámennis geta tölur greindra tilfella breyst mikið frá degi til dags og þannig haft áhrif á niðurstöður líkansins. Líkanið er einnig sagt verða stöðugra eftir því sem á líður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.