Erlent

Sádar ákærðir í Tyrklandi vegna morðsins á Khashoggi

Kjartan Kjartansson skrifar
Jamal Khashoggi var gagnrýninn á stjórnvöld í Sádi-Arabíu. Hann var myrtur á ræðisskrifstofu landsins í Istanbúl í október árið 2018.
Jamal Khashoggi var gagnrýninn á stjórnvöld í Sádi-Arabíu. Hann var myrtur á ræðisskrifstofu landsins í Istanbúl í október árið 2018. Vísir/Getty

Tyrkneskir saksóknarar hafa ákært tuttugu Sáda vegna morðsins á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi í október árið 2018. Enginn sakborningana er í Tyrklandi og yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa réttað yfir ellefu þeirra vegna morðsins.

Átján sádi-arabískir ríkisborgarar eru ákærðir fyrir morð að yfirlögðu ráði og tveir fyrir að „hvetja til“ morðs, að sögn DHA-frétastofunnar tyrknesku. Frekari upplýsingar um ákærurnar liggja ekki fyrir.

Bandaríska leyniþjónustan telur að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, hafi skipað fyrir um morðið á Khashoggi. Hann bjó í Bandaríkjunum í sjálfskipaðri útlegð og skrifaði pistla fyrir Washington Post sem voru gagnrýnir á stjórnvöld í heimalandi hans.

Khashoggi var myrtur og lík hans bútað niður þegar hann leitaði til ræðisskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl til að sækja skjöl svo að hann gæti gift sig í október árið 2018. Lík hans hefur aldrei fundist.

Sjá einnig: Fimm dæmdir til dauða vegna morðsins á Jamal Khashoggi

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu þóttust lengi framan af ekki vita um afdrif Khashoggi en viðurkenndu um síðir að hann hefði látið lífið á ræðisskrifstofunni. Hluti af fimmtán manna teymi sem var sent til Istanbúl var dregið fyrir dóm í Sádi-Arabíu vegna dauða Khashoggi. Saksóknarar þar fullyrtu að morðið hefði verið að þeirra eigin frumkvæði. Fimm þeirra sem voru ákærðir voru dæmdir til dauða í desember.

Niðurstöður rannsakanda Sameinuðu þjóðanna benda til þess að í teyminu hafi verið réttarmeinafræðingur, leyniþjónustumenn, liðsmenn öryggissveita og einstaklingar sem unnu fyrir skrifstofu Salman krónprins. Morðið á Khashoggi hafi verið aftaka „utan dóms og laga“.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.