Innlent

B-2 sprengjuþotur í oddaflugi yfir Íslandi með norskum herþotum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Bandarísk B-2 sprengjuþota yfir Íslandi ásamt þremur norskum F-35 orustuþotum síðastliðinn mánudag.
Bandarísk B-2 sprengjuþota yfir Íslandi ásamt þremur norskum F-35 orustuþotum síðastliðinn mánudag. U.S. Air Force/Matthew Plew

Tvær bandarískar B-2 sprengjuþotur tóku þátt í heræfingu yfir Íslandi og hafinu við landið í byrjun vikunnar ásamt bandarískum F-15 Eagle orustuþotum og norskum F-35 orustuþotum. Þoturnar voru í samflugi í tæpa klukkustund.

Bandarísku þoturnar komu frá Fairford og Lakenheath-herflugvöllunum í Bretlandi, þar sem þær eru staðsettar tímabundið, en F-35 þoturnar tilheyra norsku flugsveitinni sem sinnt hefur loftrýmisgæslu frá Keflavíkurflugvelli frá því í febrúar.

Sjá nánar hér: 130 manna norskt herlið og herþotur fyrir á sjötta tug milljarða sinna gæslu á Íslandi

B-2 sprengjuþota leiðir oddaflugið. Bandarískar F-15 og norskar F-35 orustuþotur fylgja.U.S. Air Force/Matthew Plew

Bandaríski fréttamiðillinn Business Insider vekur athygli á því að þetta sé í annað sinn í sögunni sem hinar torséðu B-2 sprengjuþotur komi til Íslands og að fyrra skiptið hafi verið fyrir aðeins hálfu ári. Aukin spenna í samskiptum NATO og Rússa hafi aukið áhugann á Norður-Atlantshafi og Norðurslóðum. Ísland liggi á milli þessara tveggja svæða og þetta nýjasta flug B-2 undirstriki hernaðarlegt mikilvægi landsins í augum hershöfðingja, en þotan er skæðasta kjarnorkuárásarþota heims og dýrasta flugvél sögunnar.

Sjá meira hér: Skilgreina Keflavík sem útstöð skæðustu sprengjuþotu heims

Norska fréttasíðan The Barents Observer segir þetta í fyrsta sinn sem norskar F-35 þotur hafi tekið þátt í heræfingu með B-2 sprengjuþotum.

„Þetta var vissulega sérstakt augnablik. Flugmennirnir voru virkilega spenntir,“ segir Sigurd Tonning-Olsen, talsmaður norsku flugsveitarinnar, í samtali við Barents Observer.

Hersingin yfir Íslandi. B-2 sprengjuþotur fremst og aftast ásamt norsku og bandarísku orustuþotunum.U.S. Air Force/Matthew Plew

„Heimurinn býst við að NATO og Bandaríkin haldi áfram að framfylgja verkefni sínu með afgerandi hætti,“ segir bandaríski hershöfðinginn Jeff Harrigian, yfirmaður flughers Bandaríkjamanna í Evrópu og Afríku, og bætir við:

„Verkefni sem þessi gefa okkur tækifæri til að fullvissa bandamenn okkar, og á sama tíma að senda skýr skilaboð til allra andstæðinga, um að hver sem áskorunin er, þá séum við tilbúin.“

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá komu B-2 til Keflavíkur síðastliðið sumar:



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×