Sport

„Þarf ekki verðlaunapening til að átta mig á því hvort ég hafi staðið mig vel eða ekki“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Már Gunnarsson vill að breytingar verði gerðar á mótafyrirkomulagi hjá Íþróttasambandi fatlaðra.
Már Gunnarsson vill að breytingar verði gerðar á mótafyrirkomulagi hjá Íþróttasambandi fatlaðra. stöð 2

Sundkappinn Már Gunnarsson var gestur Svövu Kristínar Grétarsdóttur í þættinum Lífið utan leiksins á Stöð 2.

Már er blindur og keppir á vegum Íþróttasambands fatlaðra. Hann kveðst þakklátur fyrir stuðning ÍF en segir að eitt og annað megi laga hjá sambandinu.

„Íþróttasamband fatlaðra er stofnun sem ég er mjög þakklátur fyrir að hafa. Þau gera íþróttir fatlaðra mögulegar á Íslandi en síðan spyr maður sig af hverju heitir þetta Íþróttasamband fatlaðra? Er ekki einhver stimpill í því? Ég væri til í að sjá því breytt. Það eru ákveðin atriði sem mér finnst þurfa að laga og ákveðin atriði sem mér finnst gamaldags,“ sagði Már.

Hann nefnir að í sundi séu fjórtán fötlunarflokkar og á Íslandsmótum séu oft mjög fáir að keppa í hverjum flokki, stundum ekki nema einn.

„Ég er stundum að keppa við sjálfan mig og ég þoli ekki að þegar það er verið að veita verðlaun fyrir 1. sæti þegar það eru kannski bara einn eða tveir að keppa,“ sagði Már.

„Í Evrópu, þegar það eru ekki nógu margir til að fylla upp í riðlanna er bara stigagjöf og sá sem kemst næst heimsmetinu í sínum flokki hann vinnur. Það er eitthvað sem ætti að gera hér. Þegar verið er að lesa upp verðlaunahafa og ég er kannski bara einn á pallinum mér finnst það ekki gott og mjög hallærislegt. Ég þarf ekki verðlaunapening til að átta mig á því hvort ég hafi staðið mig vel eða ekki. Verðlaunapeningur á ekki að vera alltof sjálfsagður.“

Innslagið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Lífið utan leiksins - Már Gunnarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×