Erlent

Hóta að refsa Bandaríkjunum vegna Taívan

Samúel Karl Ólason skrifar
Samband Bandaríkjanna og Kína hefur versnað til muna á undanförnum árum.
Samband Bandaríkjanna og Kína hefur versnað til muna á undanförnum árum. AP/Andy Wong

Kínverjar hafa hótað Bandaríkjunum aðgerðum eftir að Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að Taívan tilheyrði ekki Kína. Í yfirlýsingu segir að Kína muni bregðast við öllum aðgerðum sem komi niður á grunnhagsmunum ríkisins.

Ráðamenn í Kína hafa lýst málefni Taívan sem því mikilvægasta þegar komi að samskiptum Kína og Bandaríkjanna. Þeir hafa brugðist reiðir við harðri afstöðu ríkisstjórnar Donald Trumps gagnvart Taívan. Meðal annars hafa Bandaríkin selt eyríkinu vopn og hafa aukið stuðning við Taívan.

Pompeo sagði í viðtali í gær að það hafði verið stefna Bandaríkjanna að Taívan tilheyrði ekki Kína í rúma þrjá áratugi.

Þeim ummælum hefur ekki verið tekið fagnandi í Kína. Reuters hefur eftir talsmanni utanríkisráðuneytis Kína að brugðist verði við ummælum sem þessum, sem hann sagði grafa undan innanríkismálum Kína.

Undanfarið hafa nánast öll ríki á svæðinu auk Bandaríkjanna fjölgað heræfingum og hefur spennan aukist í kringum Taívan.

Kínverjar hafa gert tilkall til Taívans allt frá árinu 1949 þegar leiðtogar lýðveldissinna í Kína flúðu þangað undan kommúnistum. Lýðveldið Kína var í raun stofnað 1912 á meginlandi Kína. Afar grunnt hefur verið á því góða á milli ríkjanna allar götur síðan.

Yfirvöld í Kína líta á Taívan sem eigið landsvæði og hafa jafnvel hótað að ná þar tökum með valdi. Taívan hefur verið með heimastjórn frá 1950 og er í reynd sjálfstætt þrátt fyrir að hafa aldrei lýst formlega yfir sjálfstæði frá Kína.

Sjálfstæðissinnum hefur þó verið að vaxa ásmegin í Taívan á undanförnum árum.

Bandaríkin hafa lengi átt í óformlegum samskiptum við Taívan og varnarsamstarfi en viðurkenna hins vegar ekki Taívan opinberlega. Undir stjórn Donald Trump hafa samskipti Taívan og Bandaríkjanna hins vegar orðið formlegri. Bandaríkin og Taívan hafa gert tvo sáttmála sín á milli og hefur það valdið miklum áhyggjum í Peking.

Joanne Ou, talskona utanríkisráðuneytis Taívan, þakkaði Pompeo fyrir stuðninginn, samkvæmt Reuters, og ítrekaði að eyríkið tilheyrði ekki Kína. Það væri staðreynd.

Óskuðu Biden til hamingju

Samband Kína og Bandaríkjanna hefur beðið hnekki á undanförnum árum og eiga ríkin í umfangsmiklum viðskiptadeilum auk þess sem ríkin hafa deilt um Suður-Kínahaf, Hong Kong og fleira. Þar að auki hefur ríkisstjórn Donald Trumps sakað Kínverja um að ógna öryggi Bandaríkjanna með njósnum og tækniþjófnaði.

Yfirvöld í Kína hafa nú óskað Joe Biden, verðandi forseta Bandaríkjanna, til hamingju með sigurinn í forsetakosningunum í síðustu viku. Kína og Rússland höfðu dregið lappirnar í að senda Biden skilaboð. Í yfirlýsingu sagði talsmaður utanríkisráðuneytis Kína að Kínverjar virði val bandarísku þjóðarinnar.

Samkvæmt AP fréttaveitunni er þó ekki búist við því að Biden muni í raun gera miklar breytingar á stefnu Trumps gagnvart Kína. Þó hann muni líklega reyna að ræða við Kínverja um loftslagsmál, Norður-Kóreu og Íran. Hörð afstaða gagnvart Kína njóti mikils pólitísks stungins í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

Ráðuneyti samþykkir að selja vopn til Taívan

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur samþykkt að selja ýmiss háþróuð vopn til Taívan. Málið hefur þó ekki enn verið formlega sent til þingsins til staðfestingar en það hefur þegar reitt ráðmenn í Peking til reiði.

Halda aftur flotaæfingar í Suður-Kínahafi og víðar

Yfirvöld Kína halda nú fimm mismunandi flotaæfingar á hafsvæðum í Austur-Asíu. Þetta er í annað sinn á tveimur mánuðum sem herinn heldur svo umfangsmiklar æfingar og á sama tíma er spenna að aukast mikið á svæðinu.

Gagnrýnir Kína harðlega fyrir heræfingar

Tsai Ing-wen, forseti Taívan, segir það að kínverskum herþotum hafi verið flogið að eyríkinu tvisvar sinnum á síðustu dögum, sé til marks um þá ógn sem ríkjum í austurhluta Asíu stafi af Kína.

Hald­a fleir­i her­æf­ing­ar á Ta­í­vans­und­i

Kínverjar halda nú heræfingar á Taívansundi, á sama tíma og bandarískur erindreki heimsækir eyríkið. Yfirvöld í Kína segja heræfingunum ætlað að tryggja fullveldi ríkisins. Í dag gagnrýndi talsmaður Utanríkisráðuneytis Kína bæði Bandaríkin og Taívan fyrir aukið samráð og að „valda vandræðum“.

Segja Kína ekki geta ráðist á Taívan strax

Varnarmálaráðuneyti Taívan segir að þó að geta herafla Kína hafi aukist til muna, hafi Kínverjar enn ekki burði til að gera allsherjar innrás í Taívan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×