Sport

Nadal ekki enn tapað úr­slitum á leir | Jafnar met Federer | Mynd­bönd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nadal fagnar sigrinum.
Nadal fagnar sigrinum. Shaun Botterill/Getty Images

Spánverjinn Rafael Nadal jafnaði met Roger Federer í dag er hann vann sinn 20. risatitil í einliðaleik karla í tennis. Nadal, eða Konungur leirsins eins og hann er kallaður, lagði Serbann Novak Djokovic í úrslitum Opna franska meistaramótsins í dag.

Nadal er í öðru sæti heimslistans á meðan Djokovic trónir á toppnum. Það sást þó ekki á spilamennskunni í dag en Nadal lék nær fullkominn leik frá upphafi til enda. 

Hann vann öll þrjú sett dagsins, 6-0, 6-2 og 7-5, og tryggði sér þar með sinn 13. sigur á Roland Garros-vellinum í París.

Hinn 34 ára gamli Nadal hefur alls komist 13. sinnum í úrslit á Opna franska meistaramótinu og haft betur öll 13 skiptin. Þar varð engin breyting á í dag en ýmsir sérfræðingar töldu að Djokovic myndi enda einokun Nadal á Roland-Garros.

Var þetta fyrsta tap hins 33 ára gamla Djokovic á árinu. Hann var dæmdur úr leik á Opna bandaríska meistaramótinu í september svo tæknilega séð tapaði hann ekki þeim leik.

Eins og áður sagði þá var Nadal að jafna met Federer er varðar heildarfjölda titla í einliðaleik. Báðir eiga nú 20 risatitla en Djokovic er í þriðja sæti með 18 slíka.

„Sigur hér skiptir mig öllu máli. Ég hugsaði ekki um 20. titilinn eða að jafna Roger, fyrir me´r snýst þetta bara um að vinna á Roland Garros,“ sagði Nadal eftir leik sem varð einnig fyrstur í sögunni til að vinna 100 einliðaleiki á hinum fornfræga velli.

„Mikilvægustu augnablik ferilsins hafa öll komið á þessum velli. Að spila hér er allur sá innblástur sem ég þarf og ástarsaga mín við borgina og völlinn er ógleymanleg,“ sagði hinn magnaði Nadal að lokum.


Tengdar fréttir

Tveir bestu mætast í úrslitum | Myndband

Novad Djokovic tryggði sér sigur í undanúrslitum á Opna franska meistaramótinu í tennis í kvöld. Hann mætir  Rafael Nadal í úrslitum. Þeir tróna á toppi heimslistans um þessar mundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×