Innlent

Verst þegar fólk leitar að blóraböggli

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rúnar Svavarsson er formaður Hnefaleikafélags Kópavogs. Á sjötta tug kórónuveirusmita hafa verið rekin til félagsins.
Rúnar Svavarsson er formaður Hnefaleikafélags Kópavogs. Á sjötta tug kórónuveirusmita hafa verið rekin til félagsins. Samsett

Formaður Hnefaleikafélags Kópavogs segir að félagið hafi gert, og geri enn, allt sem í sínu valdi standi til að koma í veg fyrir fleiri kórónuveirusmit. Lögð hafi verið áhersla á góð samskipti við iðkendur og almannavarnir. Þá þykir formanninum miður þegar fólk leitar logandi ljósi að „blóraböggli“.

„Við tókum af skarið og lokuðum strax. Manni finnst þetta samfélagsleg ábyrgð að gera það þegar svona kemur upp,“ segir Rúnar Svavarsson, formaður Hnefaleikafélags Kópavogs, í samtali við Vísi.

Iðkandi hjá félaginu greindist með kórónuveiruna á fimmtudag eftir að hafa verið við æfingar helgina á undan. Nú eru smit tengd félaginu orðin á sjötta tug. Um er að ræða eina stærstu hópsýkingu sem komið hefur upp hér á landi síðan faraldurinn hófst. Almannavarnir hafa hrósað félaginu fyrir að hafa tekið vel á málum og létt smitrakningarteyminu róðurinn.

„Við vildum gera allt til að koma í veg fyrir fleiri smit,“ segir Rúnar. „Það voru sendir tölvupóstar á alla og haft samband við alla sem voru í húsinu. Það eru það mikil tengsl á milli iðkenda og þetta var fljótt að fréttast á milli. Flestir voru búnir að fara í skimun áður en haft var samband við þá. Þó það sé alltaf leiðinlegt þegar kemur upp sýking eða hópsmit þá er gott að vera skrefinu á undan fyrirmælum sóttvarnalæknis.“

Hann segir félagið hafa viðhaft góðar sóttvarnir, gólf hafi verið sótthreinsuð í lok hvers dags, og þá var strax ákveðið að loka húsnæði félagsins þegar smitið kom upp. Rúnar bendir á að veiran sé fljót að dreifast komi hún upp innan íþróttar eins og hnefaleika, sem í eðli sínu fela í sér mikla snertingu iðkenda.

„Það versta við þetta, þegar kemur upp svona hópsýking, þá leita menn að einhverjum blóraböggli. Það er það sem manni hefur fundist svolítið slæmt í þessu. Þetta er að dreifast út um allt. Það voru hundrað smit í dag. Og er það þá hópsýkingunni frá Hnefaleikafélaginu að kenna?“ spyr Rúnar.

„Við erum bara að díla við heimsfaraldur. Fólk verður bara að takast á við þetta.“

Allir hraustir enn

Rúnar veit ekki til þess að neinn af iðkendum félagsins sem hafa greinst með veiruna hafi fengið alvarleg einkenni.

„Þetta eru íþróttamenn þannig að þeir eru í hörkuformi. Menn eru bara æfandi inni á hótelherbergi held ég,“ segir Rúnar. Það mikilvægasta sé að sjálfsögðu að vernda alla tengda iðkendunum sem kunni að vera viðkvæmir fyrir veirunni.

„Það fóru einhverjir á hótel í ljósi þess að foreldrar eða einhverjir tengdir eru í áhættuhóp. Það er allt gert til að forða fleiri smitum.“

Jóhann K. Jóhannsson upplýsingastjóri almannavarna sagði í samtali við Vísi fyrr í dag að allir sem hafa stundað hnefaleikastöð félagsins tiltekna daga hafi verið boðaðir í skimun fyrir veirunni. Hluti iðkenda var skimaður í dag og afgangurinn á morgun. Þeir sem hefðu smitast væru ýmist sjálfir iðkendur eða fólk tengt þeim.


Tengdar fréttir

Smitin tengjast nánast öllu mögulegu

Kórónuveirusmitin tengjast öllu mögulegu; vinnustöðum, fjölskyldum, gönguhópum, hlaupahópum og fleiru, að sögn Víðis Reynissonar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×