Innlent

Þjóðir setja Ísland vafalaust á rauða lista

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Met var slegið í sýnatöku vegna kórónuveirunnar í gær þegar tekin voru um 4.500 innanlandssýni. Þar greindust 57 smitaðir og voru 29 þeirra ekki í sóttkví.

Samkvæmt því greindust um eitt prósent þeirra sem mættu í sýnatöku með veiruna.

Þrátt fyrir að smituðum hafi fjölgað milli daga bendir sóttvarnarlæknir á að hlutfall þeirra í samhengi við heildarfjölda sýna fari lækkandi.

„Þannig þetta er ekki mjög útbreitt. Þetta eru einhverjir pottar hér og þar en veiran er þó búin að fara víða og getur verið að skjóta upp kollinum af og til," segir Þórólfur Guðnason.

Það stefnir í að álíka mörg sýni verði tekin í dag og Þórólfur býst við að fjöldi smitaðra haldist nokkuð stöðugur næstu daga. Sérstaklega í ljósi þess að um 2.400, sem hafa verið útsettir fyrir smiti og gætu þar með veikst, eru í sóttkví.

„Það tekur bara langan tíma að ná þessu alveg niður. Við erum að halda í horfinu allavega og þetta er ekki að fara upp í neinum veldisvexti. Það er það sem skiptir mestu máli," segir hann.

Skólastarfsemi er víða lömuð að einhverju leyti. Allir starfsmenn og nemendur Tjarnarskóla eru í sóttkví eftir að fimm starfsmenn og tveir nemendur greindust með veiruna. Í gær voru alls um 320 nemendur og 43 starfsmenn í fimm skólum á höfuðborgarsvæðinu í sóttkví.

Nýgengni smita, það er fjöldi nýrra tilfella síðustu 14 daga á hverja 100.000 íbúa, hefur rokið upp síðustu daga og er nú um 83. Þórólfur segir þessa tölu víða fara hækkandi en að Ísland muni þó líklega lenda á rauðum listum þjóða. Strangari reglur muni því gilda um ferðamenn sem hafa verið hér.

„Ég veit að Bretar hafa verið að spá í því og vafalaust einhverjar fleiri þjóðir," segir Þórólfur. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×