Innlent

Bóta­kröfur vegna brunans hlaupi á tugum milljóna

Vésteinn Örn Pétursson og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Guðbrandur segir skjólstæðinga sína eiga það sameiginlegt að hafa orðið fyrir verulegu andlegu áfalli vegna brunans.
Guðbrandur segir skjólstæðinga sína eiga það sameiginlegt að hafa orðið fyrir verulegu andlegu áfalli vegna brunans. Vísir/Egill

Bæði þau sem urðu fyrir líkams- eða eignatjóni vegna brunans á Bræðraborgarstíg í sumar og aðstandendur þeirra þriggja sem létust hafa farið fram á skaða- eða miskabætur frá manninum sem hefur nú verið ákærður fyrir að valda brunanum. Lögmaður fólksins segir að kröfurnar hlaupi samtals á tugum milljóna. Verið sé að skoða hvort bótaskylda eiganda hússins gæti verið fyrir hendi.

Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið ákærður fyrir manndráp og íkveikju vegna brunans. Þrennt lést í brunanum og voru þau öll pólskir ríkisborgarar. Maðurinn hefur verið í gæsluvarðhaldi í tólf vikur og hefur nú verið úrskurðaður í fjögurra vikna áframhaldandi varðhald.

Guðbrandur Jóhannesson er lögmaður fólksins.

„Þau fólu mér að leggja fram skaðabótakröfu fyrir sína hönd, samtals tíu kröfur, og þær hafa allar verið framlagðar til héraðssaksóknara og voru teknar upp í ákæru,“ sagði Guðbrandur í samtali við Stöð 2 í kvöld. Hann segir að kröfurnar hlaupi samtals á tugum milljóna króna þó miskabótakröfur á Íslandi séu almennt taldar nokkuð lágar.

Guðbrandur segir þá að kröfurnar séu breytilegar eftir skjólstæðingum.

„Hluti þeirra varð fyrir verulegu líkamstjóni. Það sem þau eiga öll sameiginlegt er að þau urðu öll fyrir verulegu andlegu áfalli og mörg hver eru enn að vinna úr því með aðstoð sérfræðinga.“

Guðbrandur segir að hljóðið í skjólstæðingum hans sé þungt. Þó sé léttir að þessum áfanga málsins sé lokið. Hann segir einnig að til skoðunar sé að leggja fram bótakröfu á hendur eiganda hússins sem brann, en talið er mögulegt að brunavörnum hússins hafi verið ábótavant.

„Ég get staðfest að það er verið að skoða bótaskyldu á hendur þeim aðila og jafnframt öðrum aðilum, en ég get ekki tjáð mig nánar um það að svo stöddu máli,“ sagði Guðbrandur í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.


Tengdar fréttir

Niðurstaða lögreglu að kveikt hafi verið í

Tíu manns sem bjuggu í húsinu og fjölskyldur þeirra sem létust ætla að fara fram á miskabætur frá þeim sem grunaða. Einnig er til skoðunar að fara í mál við eiganda hússins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×