Sport

Djokovic mun aldrei gleyma því sem gerðist í New York

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Djokovic við æfingar á Ítalíu.
Djokovic við æfingar á Ítalíu. Clive Brunskill/Getty Images

Novak Djokovic – besti tennisspilari í heimi – segir að hann verði að halda áfram og reyna að gleyma því sem gerðist á opna bandaríska meistaramótinu í tennis sem fram fór í New York en það sé hægara sagt en gert.

Djokovic var dæmdur úr leik fyrir að slá bolta óvart í háls línudómara á mótinu. Atvikið var algjört óviljaverk en bæði Djokovic sem og Laura Clark, línudómarinn sem um er ræðir, voru ekki að horfa í áttina að hvort öðru þegar hann sló boltann.

„Ég verð að samþykkja ákvörðun mótanefndar og halda áfram. Auðvitað hef ég ekki gleymt því, ég held ég muni aldrei gleyma þessu atviki,“ sagði Djokovic á blaðamannafundi í Róm í dag.

Hinn 33 ára gamli Djokivic var í viðtali fyrir opna ítalska meistaramótið í tennis sem hófst í dag. Þessi magnaði tennisspilari hefur alls unnið 17 risamót á ferli sínum. og stefnir eflaust á sigur í Róm. Hann telur að atvikið í New York muni ekki hafa of mikil áhrif á spilamennsku sína.

„Ég tel ekki að þetta muni hafa nein langvarandi áhrif á spilamennsku mína. Það er jákvætt að komast út á völl sem fyrst og fara að keppa á ný. Því fyrr, því betra,“ sagði Djokovic að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.