Innlent

„Útlit fyrir að öllu haustlegra veður ryðji sér rúms“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Haustið nálgast.
Haustið nálgast. Vísir/Vilhelm

Haustið er á næsta leiti og til marks um það er von á haustlegu veðri á næstu dögum, sérstaklega á Norðurlandi.

Í dag er spáð vaxandi suðaustanátt með rigningu um sunnan- og vestanvert landið. Þar má reikna með 10-15 m/s í jöfnum vindi seinnipartinn, en hvassari vindi í hviðum og vindstrengjum, einkum undir Eyjafjöllum og á norðanverðu Snæfellsnesi.

Hiti verður víða á bilinu 9 til 13 stig, en allt að 18 stigum á Norðausturlandi í hægari sunnanátt og björtu veðri, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Þá er gul viðvörun í gildi við Breiðafjörð frá klukkan þrjú í dag fram yfir miðnætti. Von er á sunnan hvassviðri, 15-20 m/s í vindstrengjum á norðanverðu Snæfellsnesi og vindhviður 25-30 m/s.

Vinnuvikan sem framundan er hefst á á suðlægum áttum með vætu víðast hvar, en áfram hlýju veðri með lítilli úrkomu um norðaustanvert landið.

„Seinni hluta vikunnar er hins vegar útlit fyrir að öllu haustlegra veður ryðji sér rúms í ákveðnum norðanáttum. Við það kólnar í veðri og stefnir í hraustlega úrkomu á Norðurlandi, sem fellur að hluta til sem slydda til fjalla,“ skrifar veðurfræðingurinn.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:

Suðaustan 5-13 m/s, en heldur hvassari sunnantil í fyrstu. Rigning eða skúrir, einkum á Suðausturlandi, og hiti 9 til 14 stig. Úrkomulítið norðaustanlands og hiti að 19 stigum þar.

Á þriðjudag:

Suðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s. Rigning suðaustanlands, annars víða skúrir og hiti 10 til 15 stig. Norðan 5-10 norðvestantil á landinu, rigning með köflum og hiti 6 til 10 stig.

Á miðvikudag:

Gengur í norðaustan og norðan 5-13 m/s. Bjart með köflum sunnan heiða, skýjað og úrkomulítið um landið norðanvert, en fer að rigna austanlands. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast á Suðurlandi.

Á fimmtudag:

Ákveðin norðanátt með rigningu í flestum landshlutum, en slyddu til fjalla nyrðra. Hiti 3 til 12 stig, mildast suðvestanlands.

Á föstudag:

Stíf norðlæg átt. Talsverð úrkoma í köldu veðri um norðanvert landið, en bjart með köflum og heldur mildara sunnan heiða.

Á laugardag:

Útlit fyrir vestlæga átt og dálitla vætu í flestum landshlutum, en þurrt og bjart að mestu um suðaustanvert landið. Hlýnar lítið eitt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×