Sport

Fury sýndi snilli sína gegn Wilder

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fury er enn ósigraður á ferlinum.
Fury er enn ósigraður á ferlinum. vísir/getty

Tyson Fury sigraði Deontay Wilder í titilbardaga í þungavigt í Las Vegas í nótt. Fury vann með tæknilegu rothöggi í sjöundu lotu.

Wilder varð því að láta WBC-titilinn af hendi eftir að hafa haldið honum í fimm ár. Hann freistaði þess að verja titilinn í ellefta sinn í nótt en Fury hafði betur.

Fury og Wilder gerðu umdeilt jafntefli í Los Angeles 1. desember 2018 í endurkomubardaga Furys.

Þeir voru báðir ósigraðir fyrir bardagann í nótt og Wilder hafði unnið 41 af 42 bardögum sínum með rothöggi.

Wilder sló Fury tvisvar niður í fyrri bardaga þeirra en í nótt snerist dæmið við.

Fury sótti fast að Wilder og sló hann niður í þriðju og fimmtu lotu. Í þeirri sjöundu köstuðu aðstoðarmenn Wilders svo inn hvíta handklæðinu. Fyrir bardagann í nótt hafði Wilder aðeins einu sinni verið sleginn niður á ferlinum.

Endurkoma Furys er því fullkomnuð en hann keppti ekki í tæp þrjú ár vegna glímu við fíkn, þunglyndi og ofþyngd. Englendingurinn er nú kominn aftur á toppinn í þungavigtinni.

Fury hefur unnið 30 af 31 bardaga á ferlinum, þar af 21 með rothöggi.

Fury var mun sterkari í bardaganum í nótt. vísir/getty
Box


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.