Fótbolti

Barcelona fær leyfi til að fá leikmann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dembele í leiknum gegn Dortmund í nóvember.
Dembele í leiknum gegn Dortmund í nóvember. Vísir/Getty

Spænska úrvalsdeildin hefur gefið Barcelona leyfi til að kaupa eða fá lánaðan leikmann til að leysa hinn meidda Ousmane Dembele af hólmi þó svo að félagaskiptaglugginn á Spáni sé lokaður. Þá er Luis Suarez einnig á meiðslalistanum hjá Barcelona og framlína liðsins því þunnskipuð. 

Þetta kom fram á spænska miðlinum Mundo Deportivo.

Talið er að hinn ungi Ousmane Dembele verði frá í allt að sex mánuði eftir að hafa meiðst á hægra læri í leik gegn Borussia Dortmund í Meistaradeild Evrópu þann 27. nóvember. Fór hann í aðgerð nýverið vegna meiðslanna en aðeins eru rúm tvö ár síðan Dembele fór í samskonar aðgerð á vinstra læri.

Í 2-1 sigri liðsins á Getafe á laugardaginn var hinn 17 ára gamli Ansu Fati í byrjunarliði Börsunga. Lék hann 85 mínútur en Arturo Vidal kom inn í hans stað undir lok leiks. Barcelona er sem stendur í 2. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar, aðeins stigi á eftir Real Madrid sem situr á toppnum með 53 stig þegar 24 umferðum er lokið. Liðin mætast svo í hinum margrómaða El Clásico þann 1. mars.

Urmull framherja var orðaður við Börsunga á meðan glugginn var opinn í janúar en enginn gekk til liðs við félagið. Eins og stðaan er í dag er talið líklegast Willian Jose, leikmaður Real Sociedad, gangi til liðs við Barcelona en þessi 28 ára framherji hefur skorað átta mörk í 22 leikjum á leiktíðinni.

Barcelona mætir Napoli í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu þann 25. febrúar næstkomandi. Fyrri leikur liðanna fer fram á Ítalíu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×