Fótbolti

Juventus að kaupa nítján ára gamlan Svía

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dejan Kulusevski er með 4 mörk og 7 stoðsendingar í 17 leikjum með Parma í Seríu A á þessu tímabili.
Dejan Kulusevski er með 4 mörk og 7 stoðsendingar í 17 leikjum með Parma í Seríu A á þessu tímabili. Getty/ Andrea Staccioli

Dejan Kulusevski verður nýjasti leikmaður Juventus en hann er á leiðinni í læknisskoðun hjá félaginu.

Juventus mun borga Atalanta 35 milljónir evra fyrir leikmanninn eða 4,8 milljarða íslenskra króna. Dejan Kulusevski hefur reyndar ekki verið að spila með Atalanta á þessari leiktíð því félagið lánaði hann til Parma.

Dejan Kulusevski heldur ekki upp á tvítugsafmælið sitt fyrr an í lok apríl en hann fæddist í Stokkhólmi 25. apríl 2000.

Kulusevski er 186 sentímetra miðjumaður en hans besta staða er úti hægra megin þótt að hann geti spilað alls staðar á miðjunni. Hann var með samning við Atalanta til sumarsins 2023.



Kulusevski skrifar væntanlega undir fjögurra og hálfs árs samning sem ætti að færa honum fjórar milljónir evra fyrir tímabilið eða 545 milljónir íslenskra króna.

Dejan Kulusevski skoraði fjögur mörk í sautján leikjum með Parma og hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína svo mikla að hann var meðal annars kosinn besti leikmaður Seríu A í nóvember.

Kulusevski kom fyrst til Atalanta árið 2016 frá sænska liðinu Brommapojkarna en kom bara þrisvar inn á sem varamaður í fyrra. Brommapojkarna fær hluta af kaupverðinu.



Atalanta taldi sig ekki hafa pláss fyrir hann og lánaði hann því til Parma þar sem hann hefur slegið í gegn.

Móðir Dejan Kulusevski er frá Norður Makedóníu og hann spilaði fyrir sautján ára landslið þjóðarinnar. Kulusevski lék aftur á móti sinn fyrsta A-landsleik fyrir Svía í nóvember 2019 þegar hann kom inn á sem varamaður á móti Færeyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×