Erlent

Sektaður fyrir að kasta mynt inn í hreyfil flug­vélar

Eiður Þór Árnason skrifar
Framtakið vakti ekki mikla lukku hjá forsvarsmönnum flugfélagsins Lucky Air.
Framtakið vakti ekki mikla lukku hjá forsvarsmönnum flugfélagsins Lucky Air. Unsplash/Robert Bye

Kínverskur maður hefur verið sektaður fyrir að kasta smápeningum inn í hreyfil farþegaflugvélar. Klinkinu var ætlað að færa vélinni lukku en um var að ræða fyrstu flugferð farþegans.

Lu Chao sem er 28 ára að aldri var gert að greiða flugfélaginu sekt sem nemur rúmum sautján þúsund Bandaríkjadölum eða rúmum tveimur milljónum króna. Flugfélagið sem um ræðir ber nafnið Lucky Air.

Maðurinn viðurkenndi að hafa kastað klinkinu þegar hann fór um borð í vél á Anqing Tianzhushan flugvellinum í austurhluta Kína í febrúar á síðasta ári.

Flugvélin var kyrrsett áður en hún tók á loft eftir að starfsmaður sá tvo smápeninga liggja á jörðinni nálægt öðrum hreyfli hennar.

Fyrir rétti fullyrtu forsvarsmenn Lucky Air að sektin dugi ekki fyrir þeim kostnaði sem því hlaust af gjörðum mannsins.

Lu Chao vildi þó meina að flugfélagið ætti að leggja meira upp úr því að vara flugfarþega við að kasta smápeningum í átt að flugvélum.

Ekki er um að ræða fyrsta atvikið í Kína þar sem hjátrúarfullur farþegi sést kasta klinki í hreyfil flugvélar. Til að mynda var greint frá því árið 2017 að áttræð kona hefði ollið seinkun á flugi í Sjanghæ með svipuðu athæfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×