Fótbolti

Flest mörk og mesta spennan á Ítalíu

Ísak Hallmundarson skrifar
Ciro Immobile skoraði 35 af þeim 1154 mörkum sem skoruð voru í ítölsku úrvalsdeildinni 2019-20.
Ciro Immobile skoraði 35 af þeim 1154 mörkum sem skoruð voru í ítölsku úrvalsdeildinni 2019-20. getty/Carlo Hermann

Ítölskum fótbolta er oft lýst sem varnarsinnuðum og tíðindalitlum. Það var þó ekki raunin á nýafstöðnu tímabili en talsvert fleiri mörk voru skoruð í ítölsku úrvalsdeildinni heldur en í efstu deild á Spáni og Englandi. 

1154 mörk voru skoruð í Serie A á Ítalíu eða 3.04 mörk að meðaltali í hverjum leik. 1034 mörk voru skoruð á Englandi, eða 2.72 í leik og aðeins 942 mörk voru skoruð í heildina á Spáni. Flest mörk að meðaltali í leik voru í þýsku úrvalsdeildinni, en þar eru færri leikir spilaðir og voru skoruð 982 mörk, 3.21 í leik, í þeirri deild. 

Ekki eru allir sammála um ágæti þessa markaregns í ítölsku deildinni ef marka má umræðuna á Twitter. Sumir vilja meina að varnarleikurinn hafi verið sá versti í langan tíma og aðrir nefna ódýra vítaspyrnudóma. Það hafa ekki verið skoruð fleiri mörk í leik í ítölsku úrvalsdeildinni síðan árið 1951. 

Þá var toppbaráttan einnig talsvert jafnari á Ítalíu heldur en í hinum stærstu deildunum. Liverpool rúllaði auðvitað upp ensku úrvalsdeildinni og endaði tímabilið með 18 stigum meira en Manchester City sem hreppti annað sætið. Silfurlið Dortmund var 13 stigum á eftir Þýskalandsmeisturum Bayern og Real Madrid uppskar fimm stigum meira en Barcelona á Spáni. 

Aðeins einu stigi munaði á Juventus sem vann ítölsku deildina og Inter sem var í öðru sæti. Þá munaði aðeins fimm stigum á efsta sætinu og 4. sætinu, Lazio var í 4. sæti með 78 stig en meistarar Juventus enduðu með 83 stig.

Hvort ítalska deildin muni sækja í sig veðrið þegar kemur að vinsældum næstu ár á eftir að koma í ljós, en miðað við tímabilið sem lauk í gær eru áhorfendur að fá eitthvað fyrir peninginn þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×