Sport

Fá lengri tíma til að ná lágmarki fyrir Ólympíuleikana

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnar Pétursson stefnir á Ólympíuleikana.
Arnar Pétursson stefnir á Ólympíuleikana. MYND/STÖÐ 2 SPORT

World Athletics, Alþjóða frjálsíþróttasambandið, gaf það út í dag að tíminn til að ná Ólympíulágmarki í maraþonhlaupi hafi verið lengdur. Þar með fær til að mynda Arnar Pétursson aukinn tíma til að reyna við Ólympíulágmarkið.

Þegar kórónufaraldurinn skall á þá var ákveðið að fresta Ólympíuleikunum í Tókýó um ár. Leikarnir ættu að vera í gangi núna en munu fara fram næsta sumar. Eftir að ákveðið var að fresta mótinu var tekin sú ákvörðun að loka þeim glugga sem frjálsíþrótta fólk hafði til að ná Ólympíulágmarki.

Það tímabil átti upprunalega að ná frá apríl – þegar glugganum var lokað – fram til 30. nóvember. Nú hefur verið ákveðið að opna þann glugga 1. september í staðinn og þar með fær íþróttafólk tæpa þrjá mánuði aukalega til að ná Ólympíulágmarki fyrir leikana í Tókýó næsta sumar.

Til að ná lágmarki í maraþoni þarf hins vegar að hlaupa í viðurkenndum maraþonhlaupum. Því miður fyrir Arnar sem og aðra hlaupara er lítið af maraþonhlaupum á dagskrá næstu mánuðina.

Berlínarmaraþonið, sem fer venjulega fram íseptember, hefur verið aflýst og sömu sögu er að segja af New York maraþoninu sem venjulega fer fram í nóvember. Alþjóða frjálsíþróttasambandið ætlar því að reyna setja upp sérstök hlaup þar sem hægt verður að reyna við Ólympíulágmarkið. Maraþonið í London sem og í Abú Dabí verða að öllum líkindum notuð til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×