Sport

Arnar Pétursson skipti aftur í Breiðablik og stefnir á Tókýó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Pétursson ætlar sér að vinna tíu Íslandsmeistaratitla á árinu 2020.
Arnar Pétursson ætlar sér að vinna tíu Íslandsmeistaratitla á árinu 2020. Mynd/Breiðablik

Frjálsíþróttamaðurinn Arnar Pétursson er genginn aftur til liðs við uppeldisfélag sitt Breiðablik aftur eftir að hafa keppt með ÍR-ingum síðastliðin ár.

Blikar eru ánægðir með að fá sinn mann aftur til baka og sögðu frá félagsskiptunum í fréttatilkynningu.

Þar kemur fram að það togaði alltaf í Arnar að keppa aftur fyrir sitt gamla félag í Kópavogi á meðan hann væri ennþá að bæta sig sem hlaupari. Arnar hefur alla tíð búið í Kópavogi og æfði og keppti í körfubolta fyrir Breiðablik, áður en hann fór að einbeita sér að hlaupunum og gekk til liðs við ÍR, þar sem hann naut góðrar leiðsagnar Gunnars Páls Jóakimssonar þjálfara á sínum fyrstu árum sem hlaupari.

Arnar hefur verið besti maraþonhlaupari landsins undanfarin ár og hefur hann sett stefnuna á komast á Ólympíuleikana í Tokýó í sumar. Arnar hefur einbeitt sér alfarið að þessu markmiði á undanförnum mánuðum og stefnir meðal annars að þátttöku í 10 kílómetra og hálfu maraþoni í Haag í byrjun næsta mánaðar, sem undirbúning fyrir heilt maraþon í Rotterdam þann 5. apríl næstkomandi.

Núna um helgina mun Arnar aftur klæðast búningi Breiðabliks, þegar hann tekur þátt í Meistaramóti Íslands innanhúss í Kaplakrika, þar sem hann keppir í 1500 metra og 3000 metra hlaupi. Arnar hefur sett stefnuna á tíu Íslandsmeistaratitla á árinu 2020 í hinum ýmsu vegalengdum frá 1500 metrum og upp í maraþon.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.