Innlent

Icelandair hafi skipu­lega brotið upp FFÍ til að ganga í augun á fjár­festum

Sylvía Hall skrifar
Halla Gunnarsdóttir er framkvæmdastjóri ASÍ.
Halla Gunnarsdóttir er framkvæmdastjóri ASÍ. Vísir/Vilhelm

Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, fer hörðum orðum um stjórnendur Icelandair á Facebook-síðu sinni í gær. Hún segir félagið aldrei hafa viljað semja við Flugfreyjufélag Íslands heldur hafi markmiðið alltaf verið að „brjóta stéttarfélag flugfreyja á bak aftur“ til þess að ganga í augun á fjárfestum.

„Það sem er hræðilegast við aðgerðir Icelandair er að þær voru þaulskipulagðar,“ skrifar Halla um málið. Hún segir það oft gleymast í umræðunni að þjóðin sé stærsti bakhjarl félagsins í gegnum lífeyrissjóði og ofan á það bætist ríkisstuðningur.

Hún segir upplýsingar frá Icelandair benda til þess að launakostnaður flugfreyja sé um sjö prósent af rekstrarkostnaði. Það hafi því verið pólitísk ákvörðun að slíta viðræðunum sem snúist minna um kostnað.

„Það er því pólitísk, ekki peningaleg, ákvörðun að ráðast gegn þeim af slíku offorsi. Niðurbrotstilraunum verður svarað af fullri hörku,“ skrifar Halla og bætir við að réttindi launafólks séu grunnur að allri almennri velferð á Íslandi.

Munu beina því til lífeyrissjóða að taka ekki þátt í hlutafjárútboðinu 

Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði ákvörðun Icelandair að slíta viðræðunum vera ótrúlega ósvífni og vanvirðingu gagnvart starfsfólki. Í samtali við fréttastofu í gær sagðist hún ekki vita dæmi þess að slíkt hefði komið upp á íslenskum vinnumarkaði.

„Ég veit ekki fordæmi þess að félag ætli að fara svona gegn eigin starfsfólki og í rauninni að þrýsta niður launum einhliða,“ sagði Drífa.

Drífa Snædal, forseti ASÍ.Vísir/Vilhelm

Hún sagði ASÍ gera þá kröfu að hvorki lífeyrissjóðir né stjórnvöld taki þátt í fyrirhuguðu hlutafjárútboði félagsins. Það væri ábyrgð þeirra að styðja ekki við fyrirtæki sem færu svo „freklega gegn starfsfólki og vinnumarkaðnum“.

„Ég get ekki séð annað en að félagið sé þarna að fara mjög illa að ráði sínu ef að þeir ætla að njóta trausts og trúnaðar fólks til þess að fara í hlutafjárútboð.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×