Fótbolti

Goðsögnin Jack Charlton látinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jack Charlton á HM 1990 sem fram fór á Ítalíu.
Jack Charlton á HM 1990 sem fram fór á Ítalíu. Ray McManus/Getty Images

Jack Charlton - einn af lykilmönnum Englands er liðið varð heimsmeistari árið 1966 - lést í gær, 85 að aldri.

Jack lék á sínum tíma 35 leiki fyrir enska landsliðið og skoraði í þeim sex mörk. Var hann algjör lykilmaður er liðið landaði sínum eina heimsmeistaratitli ásamt bróðir sínum Sir Bobby Charlton. Jack myndaði eitt besta miðvarðarpar í sögu Englands með Bobby Moore.

England vann Vestur-Þýskaland 4-2 í úrslitum HM 1966 framlengdum leik. Þó Jack hafi mögulega ekki náð sömu hæðum og bróðir sinn Bobby þá er hann samt sem áður goðsögn í enskri knattspyrnu. 

Á meðan Bobby lék nær allan sinn feril með Manchester United þá lék Jack með erkifjendum þeirra í Leeds United. Alls lék Jack 773 leiki fyrir Leeds á þeim 23 árum sem hann var hjá félaginu. Varð hann bæði Englands- og bikarmeistari með liðinu.

Eftir að skórnir fóru á hilluna gerðist Jack þjálfari og stýrði meðal annars Middlesborough, Sheffield Wednesday og Newcastle United ásamt írska landsliðinu frá 1986 til 1996. Fór hann með írska liðið á tvö heimsmeistaramót og eitt Evrópumót.

Charlton greindist með krabbamein á síðasta ári en hann hafði einnig barist við Alzheimer-sjúkdóminn um þónokkuð skeið. Hann lést svo í gær. Jack var á sínum tíma sæmdur OBE-orðu breska konungsveldisins.

Öll lið ensku úrvalsdeildarinnar vottuðu Jack virðingu sína með mínútu þögn fyrir leiki dagsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.