Sport

Framkvæmdastjórinn hvetur lið til að ná í leikstjórnandann sem var útskúfaður fyrir þremur árum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Colin Kaepernick (fyrir miðju) hefur ekki spilað í NFL-deildinni síðan 2017. Hann gæti átt afturkvæmt í deildina eftir ummæli framkvæmdastjórans.
Colin Kaepernick (fyrir miðju) hefur ekki spilað í NFL-deildinni síðan 2017. Hann gæti átt afturkvæmt í deildina eftir ummæli framkvæmdastjórans. Vísir/EPA

Roger Goodell, framkvæmdastjóri NFL-deildarinnar í Bandaríkjunum, hefur gefið það út að hann muni styðja við bakið á öllum þeim liðum sem vilja fá Colin Kaepernick, fyrrum leikstjórnanda San Francisco 49ers, í sínar raðir.

Hinn 32 ára gamli Kaepernick hefur ekki leikið í deildinni síðan 2017 en hann var fyrsti leikmaðurinn til að „taka hné“ eða krjúpa þegar þjóðsöngurinn var sunginn eins og venja er fyrir alla íþróttaviðburði Bandaríkjanna.

Kaepernick var með því að mótmæla – mjög friðsamlega – lögregluofbeldi sem svart fólk verður fyrir í Bandaríkjunum. Í kjölfarið ákvað NFL-deildin að banna slík mótmæli og þá kallaði Donald J. Trump, forseti Bandaríkjanna, þá sem gerðu slíkt tíkarsyni (e. sons of bitches). 

Þá hefur Trump sagt að hann muni sniðganga allan fótbolta fari svo að leikmenn fái að krjúpa þegar þjóðsöngurinn fer fram.

Nú er hins vegar komið annað hljóð í Goodell sem segir að ákvörðun deildarinnar hafi verið röng.

„Augljóslega þurfa lið að vilja fá hann í sínar raðir og ef lið tekur þá ákvörðun þá mun ég styðja hana og hvet þau til að fá leikmanninn í sínar raðir,“ sagði Goodell um endurkomu Kaepernick í deildina.

Þá sagði framkvæmdastjórinn einnig að Kaepernick gæti hjálpað, leiðbeint og gert deildina betri.

Kaepernick hefur verið mikið í sviðsljósinu í kjölfar morðsins á George Floyd og virðist sem þau mótmæli og óeirðir sem hafi átt sér stað vegna ofbeldi lögreglu í garð litaðra hafi rennt stoðum undir mótmæli leikstjórnandans á sínum tíma.

Stjörnur deildarinnar, þar á meðal Patrick Mahomes og Odell Beckham Jr. hafa þrýst á deildina að fordæma kynþáttaníð og kerfisbundna kúgun svarts fólks í Bandaríkjunum. Það virðist sem Goodell hafi svarað kallinu en deildin mun leggja til 250 milljónir dollara [rúma 34 milljarða króna] yfir tíu ára tímabil til að berjast gegn kerfisbundnum rasisma í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×