Innlent

Ísland veitir hálfum milljarði í þróun á bóluefni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Vísir/vilhelm

Ísland mun veita hálfum milljarði króna í þróun á bóluefni en féð mun renna til sérstaks aðgerðabandalags fjölmargra ríkja, fyrirtækja og stofnana. Þetta tilkynnti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á ráðstefnu bólusetningarbandalagsins Gavi í dag.

Gavi miðar að því að hraða þróun, framleiðslu og dreifingu á bóluefni við kórónuveirunni og var stofnað fyrir rúmum mánuði. Markmið þess er jafnframt að stuðla að sýnatökum og meðferðarúrræðum fyrir alla, óháð búsetu og efnahag, að því er fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Framlag Íslands skiptist þannig að 250 milljónir króna fara til bólusetningarbandalagsins Gavi og sama upphæð til CEPI (e. Coalition for Epidemic Preparedness Innovation), samstarfsvettvangs fyrirtækja og opinberra aðila um viðbúnað gegn farsóttum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fjarráðstefnunni í dag.Forsætisráðuneytið

Fjölmargar alþjóðastofnanir og sjóðir á sviði heilbrigðismála, auk Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar standa að aðgerðabandalaginu og hefur fjöldi ríkja tilkynnt um framlög til mismunandi stofnana undir hatti þess, að því er segir í tilkynningu. Þannig hafa Norðmenn lofað milljarði Bandaríkjadala og Bandaríkin, Bretland, Kanada og Þýskaland lofað hundruðum milljóna Bandaríkjadala.

Í tilkynningu segir að forsætisráðherra hafi í ræðu sinni lagt áherslu á jafnan aðgang allra að heilsugæslu og öruggum bóluefnum óháð kyni, efnahag og búsetu.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, boðaði til ráðstefnunnar sem fór fram í gegnum fjarfundarbúnað. Bill Gates, stofnandi Microsoft, var ávarpaði ráðstefnuna líkt og Katrín en stofnun Bill og Melindu Gates hefur heitið 250 milljónum Bandaríkjadala í baráttunni gegn COVID-19.

„Markmið Gavi ráðstefnunnar í dag var að safna samtals 7,4 milljörðum Bandaríkjadala og náðist það og gott betur því alls söfnuðust 8.8 milljarðar,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.


Tengdar fréttir

Útbreiddur faraldur ólíklegur en líkur á einstaka smitum

Sóttvarnalæknir segir ólíklegt að útbreiddur faraldur fari um landið en líkur séu á einstaka smitum í framtíðinni. Hann sagði þá vert að svara nokkrum spurningum þegar framtíðarhorfum Íslands vegna kórónuveirufaraldursins er velt fyrir sér.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.