Sport

Sara rifjaði það upp þegar hún fékk að taka á Gunnari Nelson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir tekur á Gunnari Nelson í myndbandinu.
Sara Sigmundsdóttir tekur á Gunnari Nelson í myndbandinu. Skjámynd/Instagram

Íslenska CrossFit fólkið og MMA fólkið hefur náð athyglisverðum árangri á erlendri grundu síðustu ár. Þau hafa líka eytt tíma saman í æfingasalnum eins og sést í myndbandi sem Sara Sigmundsdóttir setti inn á Instagram síðu sína.

Sara Sigmundsdóttir og kollegi hennar Björgvin Karl Guðmundsson mættu þá á æfingu hjá Mjölni árið 2018 þar sem Gunnar Nelson og Sunna Davíðsdóttir sýndu þeim nokkrar æfingar sem eru dæmigerðar og daglegt brauð fyrir MMA-fólk.

„Ég gat ekki sett allt myndbandið inn á sínum tíma því þá var ekki búið að finna upp IGTV. Núna get ég það og hér er það,“ skrifaði Sara inn á Instagram.

View this post on Instagram

You talking to me

A post shared by Sara Sigmundsdo ttir (@sarasigmunds) on

Það var búið að vinna myndbandið fyrir alla erlenda aðdáendur Söru því öll samtölin fóru fram á íslensku en undir mátti finna enskan texta. „Þið fáið líka auka bónus því þið heyrið okkur þarna tala saman á íslensku. Engar áhyggjur samt því það fylgir enskur texti með,“ skrifaði Sara við færsluna.

„Við erum að fá CrossFittarana Söru Sigmunds og Björgvin Karl til okkar í Mjölni. Við ætlum að fara yfir nokkur MMA-brögð og einhverja lása. Við ætlum að leyfa þeim að kýla í púða og hver veit kannski tökum við einhverja glímu í lokin,“ sagði Gunnar Nelson í upphafi myndbandsins.

Sara gerði líka upp upplifun sína í myndbandinu sjálfu þar sem hún fór yfir æfinguna við lok hennar.

„Æfingin var frábær og gekk betur en ég bjóst við. Þetta var skemmtilegra en ég bjóst við. Þetta minnti mig á það þegar ég var að læra snörun í fyrsta skiptið og var smá samhæfing. Þetta var mjög gaman,“ sagði Sara um æfinguna í myndbandinu.

„Sunna er frábær þjálfari og núna væri ég til að kenna henni snörun og jafnhendingu,“ sagði Sara og Sunna skaut inn í: „Frábær nemandi,“ sagði Sunna og Sara var ánægð með það.

Eitt skemmtilegast myndbrotið var þegar Gunnar Nelson var að kenna Söru og Björgvini Karli að taka hengingarbragðið.

„Besta leiðin til að útskýra þetta er að þetta sé eins og þú sért að knúsa einhvern með öllu afli, þvílíkt innilega. Þá gleymir þú ekkert að spenna neitt,“ sagði Gunnar Nelson. Bæði Björgvin Karl og Sara fengu síðan að taka á Gunnari Nelson.

Það má sjá allt þetta athyglisverða myndband hér fyrir neðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.