Erlent

Evrópu­sam­bandið biðlar til Banda­ríkjanna að endur­meta stuðning við WHO

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópuráðsins, biðlaði til Bandaríkjanna að endurmeta ákvörðun sína að hætta að styrkja Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópuráðsins, biðlaði til Bandaríkjanna að endurmeta ákvörðun sína að hætta að styrkja Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina. EPA/OLIVIER HOSLET

Evrópusambandið biðlar til Bandaríkjanna að endurmeta ákvörðun sína að hætta að styrkja Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, WHO, vegna viðbragða stofnunarinnar við kórónuveirufaraldrinum. Evrópusambandið hvatti Bandaríkin til þessa í dag.

„Á tímum þessarar alþjóðlegu ógnar er tími til að auka samstarf og vinna að sameiginlegum lausnum. Aðgerðir sem veikja alþjóðlegar lausnir verður að forðast,“ sögðu Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópuráðsins og Josep Borrel, æðsti diplómat Evrópusambandsins, í yfirlýsingu.

„Þess vegna hvetjum við Bandaríkin að endurmeta yfirlýsta ákvörðun sína,“ sagði í yfirlýsingunni. Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti ákvörðunina í gær. Trump hefur undanfarnar vikur og mánuði gagnrýnt stofnunina og sagt hana ganga erinda kínverskra stjórnvalda auk þess að hafa brugðist illa við faraldri kórónuveirunnar.

Á blaðamannafundi í gær sagði Trump að kínverskir embættismenn hefðu ekki sinnt tilkynningarskyldu sinni til stofnunarinnar og hafi beitt hana þrýstingi til að fá WHO til að afvegaleiða umheiminn þegar veiran var uppgötvuð.

Trump kennir Kínverjum jafnframt um útbreiðslu Covid-19 sýkingarinnar og sagði kínversk stjórnvöld bera ábyrgð á yfir 100 þúsund dauðsföllum af völdum veirunnar í Bandaríkjunum og milljónir um allan heim.

Bandaríkin eru helsti bakhjarl alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og hefur ríkið veitt 450 milljónum dala árlega til WHO.


Tengdar fréttir

Ekki benda á mig, segir forsetinn

Þrátt fyrir að Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hafi barist gegn aðgerðum ríkis- og borgarstjóra, segir hann sökina vera þeirra og sömuleiðis sé fyrrverandi heilbrigðisráðherra landsins og fjölmiðlum um að kenna.

Seinagangur stjórnvalda kostaði þúsundir mannslífa

Niðurstaða rannsóknar faraldursfræðinga við Columbia-háskóla í Bandaríkjunum hefur leitt í ljós að ef brugðist hefði verið við faraldri kórónuveirunnar viku fyrr hefði mátt bjarga allt að 36 þúsund mannslífum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×