Erlent

Evrópu­ríki huga að af­léttingu ferða­tak­markana

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Stopp, segir hér á landamærum Þýskalands og Austurríkis. Til stendur að aflétta takmörkunum á þessum landamærum þann 15. júní.
Stopp, segir hér á landamærum Þýskalands og Austurríkis. Til stendur að aflétta takmörkunum á þessum landamærum þann 15. júní. EPA/Lukas Barth-Tuttas

Þýsk stjórnvöld sögðust í dag vilja aflétta viðvörunum við ferðalögum til allra Evrópusambandsríkja auk Íslands, Noregs, Sviss og Liechtenstein þann 15. júní. Þjóðverjar bætast þannig í hóp þeirra ríkja sem vilja hleypa lífi í ferðaþjónustu á ný um miðjan júní.

Nú þegar kórónuveirufaraldurinn virðist í rénun víðast hvar í álfunni huga stjórnvöld að því að koma lífi í ferðaþjónustuna á nýjan leik. Fimmtándi júní hefur verið ofarlega í huga margra evrópskra ríkisstjórna, ekki bara Þjóðverja. 

Fyrir hafa Ítalir, Austurríkismenn, Frakkar, Íslendingar, Pólverjar, Svisslendingar og fleiri tilkynnt um eða sagst hafa áhuga á að aflétta ferðaviðvörunum á þessum tíma. Ljóst er að áætlanir eru víðast hvar enn í vinnslu og margt því enn óljóst.

Elskhugar Dana mega koma í heimsókn

Danir sögðust í dag ætla að víkka reglurnar á sínum landamærum. Nú mega Norðurlandabúar og Þjóðverjar fara til Danmerkur ætli þeir að stunda viðskipti, eigi sumarhús í landinu, danska ættingja eða geti sýnt fram á að það eigi í ástarsambandi við Dana. En hvernig getur maður sýnt fram á slíkt?

Allan Dalager, aðstoðarlögreglustjóri á Suður-Jótlandi, sagði til dæmis hægt að sýna gamla ljósmynd. Jú eða bara einhvers konar skjöl sem gætu sýnt fram á að sambandið sé raunverulegt.

Kýpverjar útiloka Svía

Ýmis önnur ríki ætla nú að opna landamærin á ný. Kýpverjar eru þar á meðal en hafa þó gert óvenjulega undantekningu. Svíar eru sérstaklega teknir út fyrir sviga vegna hárrar smittíðni og dánartíðni. Svíar óttast því um sumarfríin.

„Það er afar óheppilegt að Svíþjóð skuli skilin út undan. Það er þó mikilvægt að gera sér grein fyrir því að sóttvarnir eru í algjörum forgangi. Það er okkar nálgun,“ sagði Isabella Lövin, aðstoðarforsætisráðherra Svía, um málið á blaðamannafundi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×